141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Já, ræðum aðeins heildarmyndina, hver er hún? Hér guma stjórnarliðar og meðal annars hæstv. ráðherrar af því að staða ríkissjóðs hafi tekið stórum breytingum til góðs. Veruleikinn er sá að samanburðurinn við Írland eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er ekki réttur. Samkvæmt OECD var bati á afkomu ríkissjóðs Írlands til muna meiri milli áranna 2010 og 2011 en batinn á ríkissjóði Íslands. Ég held að menn ættu að spyrja sig aðeins að því. Þau fjárlög sem hér liggja fyrir eru kosningafjárlög og eru eiginlega líkari jólagjafalista. Hér fá allir úr stjórnarliðinu eitthvað fyrir sinn snúð og við sjáum þess víða merki að jafnt einstakir ráðherrar sem einstakir þingmenn eru keyptir til fylgis við afgreiðslu fjárlaga. Áhrifin af þessu öllu, þegar búið verður að deila út jólagjöfunum, er að draga úr brýnni aðlögun ríkissjóðs (Forseti hringir.) sem veldur meiri verðbólgu og hærri vöxtum.