141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir að hér væri um að ræða sóknarfjárlög. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum missirum sótt að sjávarútvegi, sótt að orkuuppbyggingu í landinu, sótt að ferðaþjónustunni og sótt að Alþýðusambandi Íslands. Það er mál til komið að slíkri sókn linni.

Við í stjórnarandstöðunni stóðum hér í þinginu og börðumst gegn því að þessi fjárlög færu fram með þeim hætti sem ríkisstjórnin lagði upp með. Þótt sú barátta tæki tíma hefur hún greinilega skilað árangri. Það er greinilegt að ríkisstjórnin hefur áttað sig á því að þetta fjárlagafrumvarp er til þess fallið að auka verðbólgu, hækka skuldir heimilanna og gera aðilum vinnumarkaðarins erfiðara fyrir að halda kjarasamningum saman.

Við munum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna vegna þess að þessi sóknarfjárlög eru á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar og hennar einnar.