141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi sóknarfjárlög gera ráð fyrir því að það verði 4 milljarða halli á ríkissjóði. Raunin verður nær 30 milljarða halla í ríkisreikningi fyrir árið 2013. Það fullyrði ég og enginn hefur hrakið það í allri þessari umræðu.

Ég vil hins vegar segja að það er gríðarlega mikilvægt að við lærum af þeirri reynslu sem við erum að fara í gegnum núna og breytum vinnubrögðunum við fjárlagagerðina. Hér koma hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, formaður fjárlaganefndar og fleiri og segja: Vinnan hefur staðið yfir í 100 daga. Það er mælikvarðinn, 100 dagar. En skýrustu dæmin um hversu mikil handarbakavinnubrögð eru hér að baki er breytingartillagan frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem var lögð fram núna í morgun og þegar hæstv. velferðarráðherra kom hér í gær og sagði: Ég hafði bara ekki gert mér grein fyrir því hvað þessar tillögur á skatt á lækningatæki þýddu, þó svo að sú vitneskja hefði legið fyrir í 10 vikur í velferðarnefnd. Þetta segir alveg nógu mikið um handarbakavinnubrögðin sem hér eru viðhöfð.