141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég held eftir að hafa sest niður og skoðað breytingartillögurnar að það hljóti að hafa orðið einhver mistök hjá tæknimönnum þingsins því að hér eru breytingartillögur frá Þór Saari, breytingartillögur frá hv. þingmönnum Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur, tillögur frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og einhverjum fleirum, þingflokki Framsóknarflokksins sem kemur hér með viðamiklar og góðar breytingartillögur, en Sjálfstæðisflokkurinn hélt hér uppi málþófi í 2. umr. fjárlaga og hv. þingflokksformaður sagði að það væri til þess að breyta, þeir ætluðu að ná fram breytingum. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lofaði breytingunum fyrir 3. umr., seint eitt kvöldið þegar ég rakst hér inn, en þær breytingartillögur vantar, þær hafa tafist einhvers staðar í ferlinu nema ein breytingartillaga frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þar sem hann ætlar að skera virðisaukaskatturinn niður um milljarð. (Forseti hringir.) Er það breytingartillagan sem hv. þm. Illugi Gunnarsson og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson boðuðu? (Forseti hringir.) Það hefur eitthvað gerst í ferlinu og ég mæli með að fundi verði frestað, [Hlátur í þingsal.] við finnum breytingartillögur Sjálfstæðisflokksins og greiðum svo atkvæði um þær.