141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Vandinn sem við okkur blasir er enn gríðarlega mikill. Við höfum gjaldeyrishöft, við búum við talsvert mikinn skuldavanda og við á Íslandi erum með hvað skuldsettust heimili og atvinnulíf innan OECD. Enn verið að hækka skatta af hálfu þessarar ríkisstjórnar, vaxtakostnaðurinn er á uppleið, staðan á vinnumarkaði er í uppnámi. Við þetta verður ekki búið.

Hv. þm. Mörður Árnason kallar eftir tillögum frá Sjálfstæðisflokknum. Hér koma tillögur Sjálfstæðisflokksins: Stöndum með atvinnugreinunum í landinu. Lækkum skatta á fyrirtækin. Lækkum skatta á heimilin. Stundum vinnubrögð sem byggja undir frið við aðila vinnumarkaðarins. Um þessar tillögur Sjálfstæðisflokksins verður ekki kosið í dag, það verður kosið um þær í apríl. Ég er í engum vafa um það hvor tillagan, tillaga ríkisstjórnarinnar um áframhaldandi skattahækkanir og árásir á grunnatvinnuvegina eða tillaga Sjálfstæðisflokksins um lægri skatta, stuðning við grunnatvinnugreinarnar og (Forseti hringir.) samstarf við aðila vinnumarkaðarins, verður ofan á. (Gripið fram í.)