141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er sem betur fer til veröld utan þessara veggja þó að stjórnarandstaðan virðist ekki alltaf vita það. Ég tel á köflum málflutning stjórnarandstöðunnar nánast veruleikafirrtan. Hagstofan birti í morgun tölur um afkomu veiða og vinnslu sjávarútvegs á árinu 2011. Hún hefur aldrei í sögunni verið betri. 80 milljarða fjármunamyndun eftir greiðslu veiðigjalds. Kosningafjárlög segja þeir. Þetta væru kosningafjárlög ef verið væri með óábyrgum hætti að auka hallann á ríkissjóði, en frávikið frá því að frumvarpið kom fram og þangað til lokatillögur liggja hér fyrir er minna en sennilega nokkru sinni í sögunni, innan við milljarður króna. Það er haldið við markmiðin um að reka ríkissjóð nánast hallalausan á næsta ári (Gripið fram í.) þó að kosningar séu í vændum og það gæti verið til vinsælda fallið að gefa meira í. Það er hægt að mæta ýmsum þörfum verkefnum án þess að halli ríkissjóðs aukist á næsta ári. Auðvitað eru þetta alger tímamót.

(Forseti hringir.) Næstu dómarar verða ekki stjórnarandstaðan heldur greiningaraðilar, matsfyrirtæki og aðrir slíkir og ég spái því að þeir munu gefa þessu frumvarpi góða einkunn. (Forseti hringir.) Það muni undirbyggja styrkingu á lánshæfismati Íslands, auðvelda bönkum útrás á erlenda lánamarkaði og almennt mælast vel fyrir. (Gripið fram í.)