141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég heyri það að einstökum þingmönnum svokallaðrar Hreyfingar leiðist mjög í salnum, en þeir verða bara að þola það. Hér tíðkast það að hæstv. ráðherrar veifi plöggum til stuðnings sínum málflutningi. Ég ætla að veifa hér einu plaggi frá Hagstofu Íslands sem sýnir svart á hvítu að tal manna um að búið sé að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs og skuldsetningu er hjóm eitt. Hreinar skuldir ríkissjóðs samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, sem enginn dregur í efa, aukast ár frá ári. Svo leyfa menn sér að tala eins og að hér sé allt komið í blóma.

Menn leyfa sér líka að gefa til kynna að í opinberri framkvæmd í byrjun næsta árs hefji þeir verkefni sem kosta tugi milljarða kr. Ætla þeir að gera það með einhverjum töfrabrögðum? Nei, það er útilokað. Það er einfaldlega verið að blekkja fólk til fylgis (Forseti hringir.) við einhvern málstað sem engin innstæða er fyrir.