141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hér kemur fram breytingartillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd sem er sérstaklega miðuð að því að draga úr áhrifum gjaldahækkana ríkisstjórnarinnar á skuldir heimilanna. Að óbreyttu hefðu tillögur ríkisstjórnarinnar haft í för með sér 6–8 milljarða kr. hækkun á skuldum heimilanna vegna verðtryggðra lána. Rétt undir lok umræðunnar kom síðan fram að efnahags- og viðskiptanefnd ætlaði að draga eitthvað úr þessum áhrifum sem sýnir okkur hvað allt er gert í öfugri röð. Við þurftum að taka 2. umr. fjárlaga áður en bandormurinn kom fram og svo er þetta aftur að gerast við 3. umr. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin er á fjórða starfsári sínu enn og aftur að seilast í vasa skattgreiðenda, seilast í vasa skuldugra heimila til að geta stært sig af því sem hún vill kalla hallalaus fjárlög sem ekki verða.