141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:30]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem er að hér er það að ríkisstjórnin leggur af stað með áætlun sem var kynnt fyrir atvinnulífinu og viðbrögðin eru harkaleg. Óvissan í atvinnurekstri hefur aukist til mikilla muna vegna þessa. Atvinnugreinin veit ekki hvað bíður hennar og mánuðum saman stendur sú óvissa yfir vegna þess að ríkisstjórnin fer af stað með áætlanir sínar. Nú á að draga að nokkru úr. Eftir stendur auðvitað að það á að hækka skattinn og vinnubrögðin í kringum allt þetta mál, bæði þessi endir hér og líka hvernig að því var staðið allan tímann, eru auðvitað sorgleg. Það þarf að breyta þessu og samskiptin á milli ríkisstjórnar og þeirra sem eru í verðmætasköpun í landinu, fyrirtækin stór og smá, verða að vera öðruvísi. Fyrirtækin og þjóðin eiga betra skilið en þau vinnubrögð og þá óvissu sem ríkisstjórnin býr til næstum því á hverjum degi.