141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa verið fylgjandi öllum tillögum sem miða að því að heimilin séu betur sett og það sé ekki verið að leggja auknar álögur á heimilin í landinu. En þau vinnubrögð sem hv. þm. Helgi Hjörvar og félagar hans í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefnd viðhafa eru forkastanleg og til skammar. Ég segi að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefði frekar verið nær að skila áliti til fjárlaganefndar eins og hefur verið gert í mörg ár eða áratugi og er náttúrlega algerlega nauðsynlegur þáttur í fjárlagagerð hvers árs. Er staðan kannski það slæm og ríkisstjórnin það langt frá markmiðum sínum að hún treystir sér ekki til að sýna á spilin? Þess vegna er þessu hent fram á allra síðustu mínútum.