141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það eru mörg félög og félagasamtök sem óska eftir meiri fjárútlátum frá ríkinu við gerð þessara fjárlaga og ber að koma til móts við þau sem sinna brýnni þjónustu, þar á meðal þjóðkirkjunni sem er að mati þess sem hér stendur partur af velferðarþjónustunni. Það er gert í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar eins og menn geta kynnt sér. Þar fyrir utan ber að hafa það í huga að sóknarkirkjan nýtur fullra verðbóta í ár þannig að í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar er komið til móts við sóknarfélögin í landinu.