141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:22]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hér er aukin fjárheimild Háskóla Íslands til byggingarframkvæmda og tækjakaupa upp á 800 millj. kr. og er þar á ferðinni sameiginlegt framlag happdrættisfjár frá háskólanum eða Happdrætti Háskólans og frá ríkissjóði. Samtals verður því fjárheimild Háskóla Íslands til byggingarframkvæmda og tækjakaupa tæpir 1,8 milljarðar kr. á næsta ári og þýðir þetta að að minnsta kosti tvær stórar byggingarframkvæmdir fara núna á stað. Það eru bygging Húss íslenskra fræða og bygging fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Þetta er verulegt ánægjuefni auk þess sem enn frekar er komið til móts við almennar rekstrarfjárveitingar til Háskóla Íslands og reyndar nokkurra annarra háskóla í næstu töluliðum hér á eftir. Er þar m.a. sérstaklega tekið á vanda Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. Með þessu er komið verulega til móts við þá þröngu stöðu sem háskólastarfsemin hefur auðvitað verið í undanfarin ár og horfir nú til betri vegar í þeim efnum. Að viðbættum þessum myndarlegu (Forseti hringir.) stofnframkvæmdum á vegum Háskóla Íslands á næsta ári eru svo aukin fjárframlög í afmælissjóð (Forseti hringir.) Háskóla Íslands þannig að þar eru verulegar úrbætur á ferð.