141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:23]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna þessum áformum um að hækka framlög til háskólanna á Íslandi. Háskólastigið á Íslandi er undirfjármagnað ef við berum það saman við stöðuna hjá nágrannaþjóðunum. Það er mjög alvarlegur hlutur því háskólarnir þurfa að vera aflstöð fyrir atvinnulífið í landinu, fyrir utan að vera hátindur menntastarfseminnar í landinu.

Ég vek hins vegar athygli á mjög erfiðri fjárhagsstöðu litlu háskólanna á landsbyggðinni, Hólaskóla, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á Bifröst. Það er alveg augljóst að við þurfum að fara mjög kröftuglega í endurskipulagningu á háskólastiginu og skoða alvarlega tillögur um aukna samvinnu, verkaskiptingu og jafnvel sameiningu háskólanna til að bregðast við þessum vanda. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur þegar lagt fram tillögu sem var samþykkt á þinginu síðasta vetur um að setja af stað nefnd sem fari yfir þessa framtíðarskipan háskólastigsins og er forgangsmál að þeirri vinnu verði hraðað.