141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eitt brýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnar var að koma á aga í fjárlagagerð íslenska ríkisins. Það lá fyrir þegar bankahrunið varð en því miður höfum við orðið vitni að því hér í dag að við eigum enn afar langt í land. Ég bind miklar vonir við að gerð og tilkoma nýrra fjárreiðulaga muni bæta ástandið en við verðum líka að horfast í augu við að ríkisstjórninni hefur mistekist að standa við þau markmið sem hún setti sér sjálf ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þóttu þau þó heldur lágstemmd þegar þau komu fram á sínum tíma.

Við í Framsóknarflokknum höfum ítrekað lagt fram tillögur sem hefðu verið til þess fallnar að auka verðmætasköpun og þar með hagvöxt til að skapa skilyrði að aukinni velferð í landinu. Það er verkefni næsta kjörtímabils.