141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira. Ég reifaði þetta mál við 2. umr. málsins og kynnti þá sömuleiðis að við tækjum málið aftur inn í nefndina milli 2. og 3. umr. til að fjalla um tvö atriði, breytingartillögur sem komu frá einum umsagnaraðila, Bandalagi íslenskra listamanna, um það annars vegar að breyta heiti laganna úr lögum um stuðning við íslenskar bókmenntir í lög um bókmenntir. Breytingin fær jákvæðar undirtektir hjá nefndinni og við leggjum til að hún verði tekin upp. Rökstuðningurinn er sá að hluti af þeim stuðningi við bókmenntir sem þessu frumvarpi er ætlað að efla er einmitt þýðingar á erlendum bókmenntaverkum og nafnbreytingin eðlileg í ljósi þess.

Hitt atriðið sem ég vil kynna sérstaklega er breytingartillaga um að fjárveitingar til Miðstöðvar íslenskra bókmennta skuli sérgreindar í fjárlögum hverju sinni þannig að það komi skýrt fram hvaða hlutur fer til bókmenntasjóðs til styrkja til þess að gefa út bækur, kynna þær eða þýða, og hins vegar sé þá sérgreint og gagnsætt í fjárlögunum hvaða hlutur fer til rekstrar á Miðstöð íslenskra bókmennta.

Þetta eru þær breytingar sem við leggjum til fyrir 3. umr. Þeir sem skrifa undir þetta álit eru Björgvin G. Sigurðsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og sá sem hér stendur.