141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

veiting ríkisborgararéttar.

520. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kynni hér frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar frá allsherjar- og menntamálanefnd. Nefndin fjallar um þær umsóknir um ríkisborgararétt sem koma frá einstaklingum sem ekki uppfylla öll þau skilyrði sem koma fram í lögum um útlendinga sem og lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

Það er löng hefð á Alþingi að tveir farvegir séu fyrir umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt, annars vegar í gegnum framkvæmdarvaldið, það ráðuneyti sem fer með málaflokkinn, og þá eru ákvarðanir teknar á grundvelli þessara tvennra laga sem ég nefndi. Sömuleiðis hefur sú venja skapast að menn geti sótt um sérstaklega til Alþingis og þar sé þá möguleiki á því að taka tillit til persónulegra aðstæðna, mannúðarsjónarmiða eða sanngirnissjónarmiða sem kunna að vera uppi í tilviki hvers og eins.

Að þessu sinni bárust allsherjar- og menntamálanefnd 73 umsóknir um ríkisborgararétt og leggur nefndin til að 39 einstaklingum verði veittur ríkisborgararéttur. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að allsherjar- og menntamálanefnd hefur skipað þriggja manna undirnefnd sem fer vandlega í gegnum allar umsóknirnar og leggur mat á niðurstöðuna, fer í gegnum það hvaða skilyrðum er ekki fullnægt samkvæmt lagabókstafnum. Það eru skilyrði sem lúta að búsetuleyfi og dvalarleyfi, það er skilyrði um að viðkomandi hafi lokið íslenskuprófi, það eru ákvæði sem lúta að framfærslu viðkomandi einstaklinga og síðan eru það atriði sem tengjast eftir atvikum brotum sem viðkomandi einstaklingar hafa á sínum skrám.

Ég vil byrja á því að þakka samnefndarmönnum mínum í þessari undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þráni Bertelssyni, fyrir mjög ánægjulegt samstarf við þessa vinnu. Það skiptir máli að hafa komið að henni áður og núna höfum við, þessir þrír þingmenn, gert þetta í þrígang. Það myndast ákveðin reynsla sem er mikilvæg í þessu vandasama verkefni. Ég vil að það komi fram að það er mín skoðun að tilefni sé til að taka þessi lög, bæði lögin um íslenskan ríkisborgararétt og útlendingalögin, til heildstæðrar endurskoðunar. Það er athyglisvert að það eru rétt 60 ár síðan lögin um íslenskan ríkisborgararétt voru sett á Alþingi. Ég held að það hafi verið á Þorláksmessu 1952. Auðvitað hafa verið gerðar breytingar á þeim í gegnum árin en ég held að þetta ferli og sú staðreynd að margar umsóknir um ríkisborgararétt koma inn til Alþingis dragi upp mjög skýra mynd af því að það er fullt tilefni til að fara kerfisbundið í gegnum þessa löggjöf og skoða hvort ekki megi gera breytingar á henni sem uppfylla þau mannúðarsjónarmið og sanngirnissjónarmið sem við viljum hafa í heiðri hér á 21. öldinni og lúta að samskiptum okkar við þá einstaklinga sem eru af erlendum uppruna en hafa vilja og áhuga á að gerast íslenskir ríkisborgarar.

Eftir sem áður er ljóst að það verður alltaf tilefni fyrir farveg eins og þennan. Það eru persónubundin tilvik sem ekki er fyllilega hægt að mæta í gegnum löggjöfina en ég tel að hægt væri að hafa þessa meðferð mun skilvirkari og tryggja að ákveðið jafnræði og stjórnfestu í vinnubrögðunum ef við færum í heildarendurskoðun á lögunum um íslenskan ríkisborgararétt. Ég veit ekki betur en að heildarendurskoðun á útlendingalögunum standi fyrir dyrum í ráðuneytinu.

Ég læt þessari yfirferð lokið. Eins og ég sagði gerir nefndin tillögu um að 39 einstaklingar fái íslenskan ríkisborgararétt og ég óska þeim til hamingju með þá tillögu.