141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

veiting ríkisborgararéttar.

520. mál
[15:34]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst þakka undirnefndinni mikið vel fyrir gott starf í þessu flókna máli. Það er rétt sem kom fram hjá framsögumanni málsins, nefndinni berast margar umsóknir og það er heilmikil vinna að fara í gegnum þær. Þar eru höfð að leiðarljósi sjónarmið mannúðar og sanngirni þegar undirnefnd allsherjarnefndar fer í gegnum þetta. Það má alveg velta fyrir sér, eins og hv. þingmaður sagði, hvort þessi mikli fjöldi kalli á endurskoðun þótt þess beri að geta að alltaf verða tilefni til að taka á umsóknum, sérstaklega undanþágum, þegar farið er í gegnum þessi mál.

Mörgum sem hafa flutt hingað til landsins er mikið kappsmál að öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Þeir leita heilmikið til nefndarinnar og alþingismanna almennt þegar verið er að vinna þeim málum framgang og sækja um ríkisborgararétt o.s.frv. þannig að það er gott að það vinnulag hefur skapast á mörgum umliðnum áratugum að undirnefnd vinnur að þessu þvert á flokka og alltaf er þverpólitísk samstaða allra um þessi mál. Þetta er aldrei afgreitt í ágreiningi úr út nefndinni og skiptir mjög miklu máli að það verklag haldist, þrátt fyrir þá djúpstæðu þrætubókarlist sem oft er iðkuð hér á Alþingi því til mikils tjóns og skaða, að halda svona stórmálum sem umsókn um ríkisfang er fyrir þá sem hingað hafa flutt fyrir utan þá oft ömurlegu umræðu.

Það hefur tekist, það er ánægjulegt og ég þakka undirnefndinni aftur fyrir að hafa meðal annars borið þessi mál svo vel fram að þau hafa algjörlega verið fyrir utan slík átök. Um leið tek ég undir hamingjuóskir til þessara 39 verðandi nýju Íslendinga.