141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta og fóðursjóður). Með þessu frumvarpi er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum búvörulaga og tollalaga er varða innflutning landbúnaðarvara. Nánar tiltekið er um að ræða breytingar á þeim ákvæðum sem ná til úthlutunar á tollkvótum vegna innflutnings landbúnaðarvara samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum, ákvæðum þeirra um ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara og ákvæðum um dagsektir þegar skýrslu- eða upplýsingaskyldu er ekki fullnægt. Að auki er nú í frumvarpinu að finna þrjár greinar og ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lagt er til að brott falli ákvæði um ráðstöfun tiltekinna tolla af innfluttu fóðri og hráefni í fóðursjóð og heimild ráðherra til endurgreiðslu þeirra og að eftirstöðvar tekna fóðursjóðs renni inn í ríkissjóð.

Þetta mál hefur að mestu leyti verið lagt fram áður og á sér forsögu í því að hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra breytti útreikningsreglum við innflutning á landbúnaðarvörum sem varð til þess að þessu máli var vísað til umboðsmanns Alþingis. Í áliti umboðsmannsins frá 18. júlí 2011 er fjallað um nokkur ákvæði tollalaga og búvörulaga. Hann kemst að tveimur meginniðurstöðum, annars vegar að því að ákvæði 3. mgr. 5. gr. tollalaga og 1. gr., 65. gr. og 65. gr. A búvörulaga standist ekki kröfur stjórnarskrár um skýra afstöðu löggjafans til innheimtu skatta og tolla. Hins vegar kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að með reglugerðarheimild 3. mgr. 12. gr. tollalaga, samanber 1. mgr. 65. gr. A búvörulaga, væri gengið lengra við framsal skattlagningarvalds en 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar heimiluðu og ráðherra fengið vald til að ákvarða álögur í formi tolla á vörur sem væru fluttar inn samkvæmt tollkvótum sem tilgreindir væru í viðauka IVA.

Sömuleiðis var kveðinn upp dómur í héraðsdómi 27. september 2012 þar sem ríkið var dæmt til greiðslu tiltekinnar fjárhæðar að viðbættum dráttarvöxtum og málskostnaði. Ástæðan er sú að héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið væri bótaskylt vegna ólögmætrar álagningar tolls á innflutning á kjúklingabringum.

Það má segja að þetta sé bakgrunnur málsins. Það varð mikil umræða í nefndinni á sínum tíma, bæði þegar þetta mál var til umfjöllunar og einnig þegar það var lagt fram í nokkuð öðrum búningi. Þær umræður sneru meðal annars að því hvernig hægt væri að skilgreina það sem væri verið að reyna að festa hendur á, hvenær um væri að ræða raunverulega þörf á innflutningi á landbúnaðarvörum og í öðru lagi, ef um væri að ræða þessa þörf, hversu miklu magni o.s.frv. ætti að úthluta til að bregðast við þeirri eftirspurn og þeim skorti sem mögulega kæmi upp í einstökum greinum.

Ég ætla ekki að fara yfir þetta í smáatriðum, það er rakið nákvæmlega í nefndaráliti, en við komumst að þeirri niðurstöðu að það fyrirkomulag sem lagt væri til væri sennilega það skásta sem við kæmum auga á. Það kom hins vegar fram ákveðin tortryggni í þessari umræðu, bæði getum við sagt frá framleiðendahliðinni innan lands, Bændasamtökunum, og einnig frá innflytjendum. Til að reyna að bregðast við þessu leggjum við til að við frumvarpið bætist ný málsgrein sem yrði þá svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Áður en nefndin gerir tillögur samkvæmt 2. mgr. skal hún senda Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Samtökum verslunar og þjónustu og Neytendasamtökunum drög að tillögunum. Tillögudrögunum skal fylgja stuttur rökstuðningur. Nefndinni er heimilt að gera tillögurnar fjórum dögum síðar hafi henni ekki borist yfirlýsingar studdar gögnum þar sem leitt er í ljós að tillögur nefndarinnar séu byggðar á röngum eða misvísandi upplýsingum.“

Ég vil í þessu sambandi árétta það sem hér segir, að þessum tillögudrögum frá nefndinni skuli fylgja stuttur rökstuðningur og að tillögum, ábendingum, athugasemdum eða einhverju öðru sem mögulega berist frá þeim aðilum sem hér er vísað til verði að fylgja rökstuðningur.

Ég er með fyrirvara við þetta mál og vil gera grein fyrir honum. Hann lýtur að því að ég hafði á sínum tíma ásamt fleiri hv. þingmönnum lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta og fóðursjóðs). Þar var gert ráð fyrir því að hverfa frá því verðmiðlunar- og verðtilfærslukerfi sem hefur lengi verið við lýði og er í rauninni barn síns tíma. Bæði innlendir framleiðendur og Bændasamtökin hafa hvatt til þess að þetta yrði lagt niður. Það hefur í raun engan tilgang eins og staðan er núna á markaði.

Hitt sem líka skiptir máli er að sá stuðningur sem má segja að birtist í fjárlögum sem inn- og útgreiðsla og hefur í raun og veru enga þýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs mælist hins vegar sem innanlandsstuðningur við landbúnaðinn og gerir það að verkum að í opinberum erlendum gögnum mælist sá stuðningur meiri en efni standa til.

Það er sem sagt lagt til að horfið verði frá þessu. Þetta er mjög skylt því frumvarpi sem hér er um að ræða og ég bendi á að röksemdafærslurnar fyrir því að leggja niður fóðursjóð, sem ég styð, og koma fram í þessu frumvarpi eru mjög samkynja rökstuðningi okkar sem á sínum tíma lögðum þetta til. Þá breytingu flytjum við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og Jón Gunnarsson.

Undir nefndarálitið að öðru leyti skrifa auk þess sem hér stendur, sem er framsögumaður málsins, hv. þingmenn Kristján L. Möller, Þuríður Backman og Lilja Rafney Magnúsdóttir, og með fyrirvara hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari.