141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[15:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni Einari K. Guðfinnssyni fyrir að fara í gegnum þetta mál og reyna að leiða þetta afar flókna lagamál í þessu frumvarpi. Margar athugasemdir þeirra sem sendu inn umsagnir snerust um að frumvarpið væri illskiljanlegt og nefndin hefur þar af leiðandi reynt að ná því fram hvaða tilgangi frumvarpið þjónaði og hvernig þeim tilgangi væri hægt að ná af skynsemi.

Án þess að lengja þessa umræðu mikið vil ég gera grein fyrir fyrirvörum mínum við nefndarálitið. Þeir eru annars vegar má heita almennir og snúa þá að því að lögin eru óskýr. Ég er ekki viss um að við náum að leysa þann vanda núna. Meðal yfirlýstra markmiða laganna er að vernda innlenda framleiðslu en jafnframt að tryggja að ekki sé vöruskortur á sambærilegum vörum innan lands og heimila þar með innflutning. Eins og kom fram hjá hv. framsögumanni er líka markmið að breyta úr því sem dæmt hefur verið ólögmætt, að vera með verðtolla, og taka aftur upp magntolla.

Annar fyrirvari minn snýr að breytingartillögu nefndarinnar þar sem fjallað er um að haft sé samráð við fjóra aðila. Ég tel að þeir fjórir dagar sem gefnir eru séu í það stysta, að fimm dagar væru betri, en það er kannski ekki stóri munurinn.

Þriðji almenni fyrirvarinn er sá að ég hefði viljað sjá í tillögunni hvernig lausnin væri. Það er ekki nóg að mönnum beri saman um að vöruskortur sé sannarlegur af því að við þekkjum að á Íslandi getur verið fákeppni framleiðendamegin. Í hagræðingarskyni hafa til dæmis margir blómaframleiðendur og aðrir slíkir sameinast og þeim fækkað verulega. Af því að þetta er lítill markaður hafa menn sérhæft sig til að geta uppfyllt óskir markaðarins og þar af leiðandi eru ekki tveir eða fleiri framleiðendur sem hægt er að leita til ef vöru vantar. Hið sama gildir um svepparækt og kalkúnarækt svo dæmi séu tekin. Á þessu er reynt að taka í nefndarálitinu.

Þá er augljóst að á Íslandi er fákeppni á smásölumarkaði og milli þessara ólíku aðila er líka ákveðin tortryggni sem hefur komið fram í umræðu á síðustu árum um meintan vöruskort og erfiðleika við að skilgreina og finna út úr því hvort það sé allt satt og rétt. Þess vegna hefði ég talið rétt að þegar menn hafa komist að niðurstöðu um að sannarlega sé vöruskortur yfirvofandi og nauðsynlegt að heimila innflutning í ákveðnu magni verði ekki einasta ákveðið að það sé skortur heldur verði um leið og heimildin sé opnuð fyrir innflutningi reynt að skilgreina það magn sem vantar og þann tíma sem áætlaður vöruskortur muni standa yfir. Það má benda á að í nokkrum tilvikum hafa innflutningsaðilar nýtt sér heimildina og flutt inn umtalsvert magn vöru sem er síðan áfram á markaðnum, ýtir út innlendri framleiðslu og skemmir fyrir markmiði laganna. Má þar nefna bæði grænmeti og kjöt sem getur verið mjög lengi í geymslu hjá innflutningsaðila. Ég hefði talið þetta nauðsynlegt og á þessu er reynt að taka í nefndarálitinu. Ráðuneytisnefndin sem fer yfir þetta og metur þarf að taka tillit til sjónarmiða um magn og tíma.

Að lokum er fyrirvari um þá breytingartillögu sem ég stend að ásamt hv. framsögumanni, Einari K. Guðfinnssyni. Ég er meðflutningsmaður um það á sama hátt og ég gleðst yfir því að fóðursjóður sé lagður niður. Hann er tilgangslaus sjóður þar sem þeir sem flytja inn fóður þurfa að leggja fram bankatryggingar. Svo er umsýsla hjá stjórnsýslunni og nákvæmlega sama krónutala fer aftur út. Hann hefur enn fremur orðið til þess að menn misskilja opinberan stuðning við landbúnað á Íslandi, hann hefur verið túlkaður sem slíkur sem hann er alls ekki. Svo er þetta kostnaðarauki og hefur í för með sér alls kyns umstang fyrir þá aðila sem standa í þessu. Það er mjög gleðilegt að loksins sé meiri hlutinn kominn á þá skoðun að það eigi að leggja fóðursjóð niður.

Á sama hátt hefði verið skynsamlegt að leggja niður þá verðmiðlun og verðtilfærslu sem snýr að mjólkurvörum og er upp á 400 og eitthvað milljónir, ef ég man rétt. Á sama hátt hefur sú tala ævinlega ratað inn í meintan stuðning opinberra aðila á Íslandi við landbúnað þó að talan sé eingöngu tilbúin í fjárlögum og snúi fyrst og fremst að mjólkuriðnaðinun sjálfum. Þar fara þeir fjármunir í hring til að tryggja verðtilfærslu á milli mjólkurbúa og eftir breytingar sem þar hafa orðið er þessi verðmiðlun tilgangslaus og á ekki heima í lögum. Til þess að einfalda það kerfi væri skynsamlegt að nota nú tækifærið og samþykkja þessa breytingartillögu. Ég setti fyrirvarann í nefndarálitið þar sem ekki varð hljómgrunnur hjá meiri hlutanum um að setja hana hérna inn.

Ég tel því svo sem ekkert að vanbúnaði að þetta mál haldi áfram í þinginu og fari í atkvæðagreiðslu og lýk þar með máli mínu, frú forseti.