141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[16:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með frumvarpinu er lagt til að Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður verði sameinaðir og nafni Tækjasjóðs breytt í Innviðasjóð og hlutverk hans útvíkkað svo að hann geti styrkt aðra innviði rannsókna og jafnframt verði fagráði Innviðasjóðs komið á laggirnar.

Það er álit nefndarinnar að þetta verði mjög til að styrkja nýsköpunar-, vísinda- og tæknistarf í landinu. Mjög ánægjulegt er að náðst hefur að ljúka vinnunni við þetta mál þannig að lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir breytist með þessum hætti svo að samræmi og samspil ólíkra sjóða á sama sviði verði sameinaðir og kraftarnir nýttir þannig.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem er framsögumaður málsins og hafði veg og vanda af því að leiða vinnuna við þetta flókna, mikla og mikilvæga mál í nefndinni, og öðrum nefndarmönnum fyrir hvað vel og hratt gekk að ljúka vinnunni við málið þannig að það geti orðið að lögum núna fyrir áramót.