141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum og tollalög.

272. mál
[16:08]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég er á nefndaráliti atvinnuveganefndar með fyrirvara og sá fyrirvari stafar af því að lög sem málið varða eru nánast óskiljanleg. Mig langar að benda á hvað stendur í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Í umsögn Samtaka atvinnulífsins frá 140. þingi er bent á það skilyrði hugmyndarinnar um réttarríki að lög eigi að vera aðgengileg.“

Svona voru umsagnir sem komu um málið til nefndarinnar.

„Þá gagnrýna Samtök verslunar og þjónustu að með þingmálinu sé viðhaldið miklu flækjustigi í lagasetningu.“

„… var nefndarmönnum tíðrætt um hve flókinn texti þeirra ákvæða búvörulaga og tollalaga væri sem fjalla um úthlutun tollkvóta.“

Í lokin er talað um að mjög brýnt sé að fara í heildarendurskoðun á þeim lögum og öllum (Forseti hringir.) ákvæðum. Ég vona svo sannarlega að það verði gert því að það er algjör martröð að reyna að lesa sig í gegnum umræddan lagabálk.