141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

veiting ríkisborgararéttar.

520. mál
[16:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka undirnefnd þeirri sem var skipuð í allsherjar- og menntamálanefnd og vann að þessum málum. Þriðja veturinn í röð skipuðu þau hana hv. þingmenn Skúli Helgason, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þráinn Bertelsson og þakka ég þeim fyrir mikið og gott starf í því flókna verkefni að fara í gegnum þær 73 umsóknir sem bárust nefndinni.

Það að Alþingi hafi þetta svigrúm og sveigjanleika til að veita undanþágur skiptir miklu máli. Það er fyrst og fremst í nafni mannúðar og sanngirni sem tekin er afstaða og ákvörðun um hverjir er lagðir til að fái ríkisborgararétt. Það er hverjum þeim sem um það sækir mikið alvöru- og hjartans mál að það gangi eftir, eins og við þekkjum mörg af samtölum við þá sem eftir því eru að sækja.

Ég óska þeim 39 einstaklingum sem brátt verða nýir Íslendingar innilega til hamingju með það og þakka undirnefndinni aftur fyrir afskaplega góð störf og það sem skiptir miklu í því er að um er að ræða þverpólitíska samstöðu sem áður í þessum málum.