141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

Íslandsstofa.

500. mál
[16:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það samtal hefur átt sér stað um margra ára skeið og hefur aðallega verið á milli embættismanna fjármálaráðuneytis og fjárlaganefndar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög auðvelt að færa rök fyrir réttmæti markaðra tekjustofna. Ég sagði líka áðan að það væri mér ekki sáluhjálparatriði. Það er alveg hægt að fara hina leiðina eins og fjárlaganefnd hefur af einhverjum hreinlætisástæðum verið að ræða árum saman. Menn telja að það mundi draga úr sveiflum sem óneitanlega fylgja mörkuðum tekjustofnum með þessum hætti með veltunni í samfélaginu. Ég skil það, en ég er samt hræddur við það. Hv. þingmaður hefur kannski einhverja skoðun á því sökum eins af fyrri störfum sínum, þ.e. sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Ég er hræddur við að það mundi leiða til minna framlags vegna þess að það er alltaf fyrir hendi sú tilhneiging sem eðlileg er hjá embættismönnum góðum í fjármálaráðuneytinu og fjármálaráðherrum að draga úr framlögum á erfiðleikatímum. Það mundi að lokum þrengja að starfsemi stofnunarinnar. Þess vegna skil ég þau sjónarmið sem ég hef kosið að fylgja eftir yfirvegun, en á sínum tíma tók ég þátt í umræðum um annað, m.a. yfir þetta púlt.

Þegar ég sagði áðan að mér hefði þótt álit skrifstofunnar vont var það vegna þess að ég var ósammála skoðuninni. Mér er alveg sama þó að hún komi fram, ég hef ekkert á móti því. Hún hefur ekki komið fram í mínu ráðuneyti, þetta er ekki skoðun ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur ekki neina sameinaða skoðun á þessu tiltekna máli. Ég hef áður lýst afstöðu minni en ég hefði samt beygt mig undir þetta ef um það hefði verið samstaða millum flokkanna. Þess vegna beið ég eftir því að samtalinu lyki og það frumvarp sem ég hafði heyrt af kæmi fram, (Forseti hringir.) en það kom aldrei fram og þess vegna lagði ég fram mitt frumvarp.