141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðu hans. Endurskoðunin á lögum um upplýsingarétt almennings er nú nokkuð þyrnum stráð og hefur margoft komið hér fyrir þingið, en svo virðist vera að alltaf sé verið að fjalla um sömu málin og alltaf verið að laga það sem miður fer í þeim lögum. Þetta var eitt af því sem ríkisstjórnin lýsti yfir þegar hún tók við, að auka mjög ætti mikið rétt almennings til upplýsinga. Gerðar hafa verið margar atrennur að því og ég sé svo sem ekki í fljótu bragði að miklar breytingar hafi verið gerðar varðandi upplýsingalögin. Eins og ég fór yfir á fyrri stigum málsins þá leit frumvarpið ágætlega út. Það var mikil opnun á ákveðnum þáttum í frumvarpinu en svo var þeim lokað jafnharðan, eins og t.d. varðandi það sem ég vil kalla forsætisráðherravætt, því að samkvæmt lögunum er forsætisráðherra veitt undanþáguheimild til að víkja frá lögunum og þá eru teknar pólitískar ákvarðanir þar.

Ég viðurkenni að málið hefur verið bætt á milli umferða og þau ár sem það hefur verið til umræðu, en mig langar að spyrja hv. þm. Róbert Marshall, því að ég ætla ekki að taka til máls við 2. umr. með ræðu: Hvernig er staðan á því ákvæði sem gert var að skilyrði hjá þingmönnum Hreyfingarinnar fyrir stuðningi við ríkisstjórnina, þ.e. að teknir yrðu upp ríkisstjórnarfundir og upptakan varðveitt? Nú er verið að útrýma þeirri tillögu endanlega úr upplýsingalögum, búið var að taka það fyrir áður en nú er það endanlega út af borðinu. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina breytist þegar ákvæðið verður endanlega þurrkað út?