141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Loksins lítur út fyrir að okkur takist að ljúka þessu mikilvæga máli sem er ný lög um upplýsingar. Ég hef beðið mjög lengi eftir því. Í raun og veru takast þau á við það sem var kallað mjög eftir eftir hrunið, það er að stjórnsýsla okkar sé bæði með tryggt gagnsæi og að aðgengi almennings að upplýsingum frá stjórnsýslunni sé betur varið. Ég fagna því að við erum komin svona langt með þetta, en ég ætla ekki að fagna alveg fyrr en lögin eru komin algjörlega í höfn, því þetta er eitt af þessum málum, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom inn á, sem hefur verið sópað af borðinu út af því að það var ekki 100% eining um það í kringum þinglok.

Nú hef ég gríðarlega mikinn áhuga á upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Mig langar aðeins að ræða um það sem mér finnst mikilvæg breyting til batnaðar, því þegar frumvarpið kom fyrst hingað til þingsins úr ráðuneytinu var það alls ekki í anda þeirrar þingsályktunar sem þingið samþykkti einróma og hefur verið kölluð IMMI, eða að Ísland taki sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Sem betur fer höfðu þingmenn þá þingsályktun sem var samþykkt einróma til viðmiðunar um hvernig bæri að vinna úr þessu skringilega frumvarpi úr forsætisráðuneytinu, sem var í engu samræmi hvorki við það sem maður hefði haldið að hæstv. forsætisráðherra hefði að viðmiði né þingið og ríkisstjórnarflokkarnir. En mér finnst mjög gott að sjá að markmið og gildissvið sem koma fram í 1. gr. séu þess eðlis að tryggja beri gagnsæi stjórnsýslu við meðferð opinberra hagsmuna m.a. í þeim tilgangi að styrkja í fyrsta lagi upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, í öðru lagi möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, í þriðja lagi aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, í fjórða lagi möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og í fimmta lagi traust almennings á stjórnsýslunni. Mér finnast þetta vera algjörar grunnstoðir lýðræðis.

Ég verð að viðurkenna að það vekur hjá mér miklar áhyggjur hve vantraustið er mikið, t.d. til þeirrar stofnunar sem við vinnum hjá sem fulltrúar þjóðarinnar, og ég vona að með betra aðgengi almennings að gagnsærri stjórnsýslu náum við að byggja upp traust að nýju. Það er kannski dálítið barnaleg afstaða, en það er mín einlæga von. Því ef við höfum lýðræðisríki þar sem ekkert traust er til þeirra sem eiga að fara með löggjafarvaldið erum við í mjög vondum málum.

Mér finnst líka mjög mikilvægt í þessum nýju upplýsingalögum að fram komi að í 11. gr. stendur: „Aukinn aðgangur.“ Og: „Heimilt er að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt lögum þessum enda standi aðrar lagareglur því ekki í vegi, þar á meðal ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd.“

Mig langar að benda á að í þingsályktuninni um upplýsinga- og tjáningarfrelsið sem var samþykkt hér 2010 — og vil ítreka og árétta að þótt það standi ekki innan þessa lagaramma í upplýsingalögunum þá ættu allar takmarkanir á upplýsingum sem varða opinbera aðila almennt að ganga sem skemmst. Þannig ættu upplýsingar sem verða til í starfi viðkomandi alla jafna að vera aðgengilegar. Til greina kæmi kerfi þar sem beiting undanþágu til að hindra birtingu skjala væri tilkynnt jafnóðum og öll slík skjöl yrðu sjálfkrafa birt þegar undanþága rynni út. Mig langar bara að minna á þetta því það er gríðarlega mikilvægt.

Síðan er líka mjög mikilvægt að þegar við förum nú loks að fá miðlægan gagnagrunn eða miðlæga skrá um skjöl sem eru í vörslu ríkisstofnana þá fylgi með þeim öflugar leitarvélar. Einnig að skráningin sé mjög vel skilgreind þannig að mikilvægar upplýsingar drukkni ekki í miklu skjalaflóði. Það er mjög mikilvægt að skilgreint sé nákvæmlega hvernig haga beri því að gera gögnin aðgengileg almenningi því við lifum sem betur fer á þannig tímum að við getum tæknilega séð haft mjög gott aðgengi að upplýsingum. Ég hef ekki áhyggjur af miklum kostnaði í kringum þessa tegundaskráningu út af því að nánast öll skjöl eru nú rafræn. Við getum leitað leiðsagnar t.d. hjá kollegum okkar hjá stjórnsýslunni í Noregi. Þar hafa þeir sett upp aðgengi að opinberum gögnum þannig að allt er jafnóðum birt á stafrænu formi. Fyrst á meðan þetta var að yfirfærast var þetta náttúrlega svolítið meiri handavinna og eitthvað aðeins dýrara, en núna er það þannig að eftir því sem kerfið er einfaldara og betra í uppsetningu og framsetningu getur fólk náð sér í upplýsingar án aðkomu fólks á launum. Þetta eru oft blaðamenn og þeir sem beita sér í lýðræðinu og nú þurfa þeir ekki lengur að ræða við persónur eða starfsmenn.

Það má segja að upplýsingalögin hafi tekið mjög jákvæðum breytingum í meðförum þingsins. Auðvitað hefði ég viljað sjá okkur ganga aðeins lengra, en það er náttúrlega tilgangur minn á Alþingi að vera aktívistinn sem vill fara eins langt og mögulegt er þannig að allt annað virkar afskaplega miðjulegt. Ég fagna þeirri góðu vinnu sem hefur átt sér stað í nefndinni. Það er svo ánægjulegt að sjá þegar þingið nær að vinna eins og mig dreymdi um að við gætum unnið þegar ég kom inn á þingið. Að við mótuðum og löguðum hlutina út frá vilja þingsins en ekki endilega að vilja stjórnsýslunnar. Mér finnst það mikil framför.

Ég verð að segja að þó maður kvarti mikið undan því hvernig störfunum er háttað hér, þau eru hrikalega oft óskilvirk og kaótísk, finnst mér þingið hafa tekið sér meiri völd síðan ég settist hingað inn. Mér finnst mikilvægt að við einbeitum okkur líka að því sem við höfum gert vel því þetta er ekki einn allsherjar heimsendir eins og mætti halda miðað við sumt sem kemur fram í þessari pontu.

Síðan finnst mér líka mikilvægt að sjá að inni í þessum lögum er gert ráð fyrir að til verði einhvers konar kærunefnd þannig að ef fólk fær ekki gögnin sín geti það leitað eitthvert. Það er mikilvægt að gögnin sem við ætlum að gera aðgengileg almenningi til þess að hafa hér meira gagnsæi í stjórnsýslunni — það sé farið strax í að vinna í anda þessara laga þó ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta gerist ekki á einum degi. Það tekur tíma að aðlaga stjórnsýsluna, en hér fær hún virkilega góðan ramma til að vinna út frá. Því ber að fagna. Þetta er einn af hornsteinunum í nýja Íslandi, hornsteinunum sem almenningur kallaði eftir og sem margir þingmenn hafa beðið eftir. Ég vona að við berum gæfu til að klára þetta mál fyrir jólahlé og vil þakka öllum nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem unnu að framgangi þess að frumvarpið væri í anda þeirrar þingsályktunar sem við öll samþykktum fyrir þeirra góðu störf.

Síðan vil ég að lokum bera af mér sakir sem ég heyrði í andsvari til þingmannsins Róberts Marshalls frá þingmanninum Vigdísi Hauksdóttur um að þingmenn Hreyfingarinnar hefðu farið út í einhverja samninga um að fá eitthvað og þeir samningar hefðu verið sviknir og að við hefðum staðið í einhverjum hrossakaupum. Ég á engan hest og hef ekki gefið neinum hest, það stendur ekki til að ég fái neinn hest hérna inni á þingi né ég gefi neinum hest.