141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott og málefnalegt svar. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort við hefðum ekki átt að hugsa þetta betur, hvort það geti að einhverju leyti skrifast á okkur hér að við hefðum kannski átt að hugsa þessa hluti lengra. Nú eru 17 slitastjórnir að störfum. Við þekkjum það að mjög mikil umræða er um framgang þeirra. Við sáum síðast í dag grein í Fréttablaðinu þar sem manneskja skrifar og segir farir sínar ekki sléttar í sambandi við viðskipti sín við slitastjórnir.

Mér finnst lagafyrirmælin vera alveg skýr, ég hef ekki heyrt neinn halda öðru fram en að lagafyrirmæli séu mjög skýr að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa eftirlit með slitastjórnunum, sem eru í rauninni ansi stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Ég held að okkur fyndist alveg á sama hátt ekki eðlilegt að bankaráðsmenn væru að eiga mikil viðskipti við sín félög, það held ég að yrði aldrei liðið og ekki af Fjármálaeftirlitinu. Því hljótum við að líta með svipuðum hætti á hlutina þegar kemur að slitastjórnunum.

Þegar við áttum okkur á því núna, í það minnsta virðist svo vera, að ekki hafi verið haft eftirlit með þeim — það er ekkert sem bendir til annars, alla vega ekki á sama hátt og um önnur fjármálafyrirtæki þó svo að sömu lög, í það minnsta fram til loka árs 2011 og sambærileg síðan, séu um slitastjórnir og fjármálafyrirtæki — þá held ég að það sé eitthvað sem við þurfum að líta á í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og spyrja hæstv. ráðherra, sem hefur að vísu verið með stór orð um þetta en ekki mikið um efndir.