141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna síðustu orðum hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, bæði þeim sem snúa að neytendaverndinni og þeim sem snúa að slitastjórnum. Þau eru kannski dæmi um að við getum verið sammála í þessum sal. Það er enginn vafi í mínum huga að við getum unnið saman að því máli sem hann nefndi. Það verður bara að segjast eins og er að síðustu fjögur ár eru ár hinna glötuðu tækifæra. Það var tækifæri til þess að endurskipuleggja hlutina þannig að áhersla yrði lögð á neytendavernd. Allir töluðu um það en enginn hefur framkvæmt það. Í sjálfu sér er ríkisstjórnin ein til þess bær. Af því hv. þingmaður talaði um nefnd um neytendavernd þá er hún til staðar. Þingsályktunartillaga um þessi mál var samþykkt í vor en nefndin var sett á laggirnar annaðhvort í október eða nóvember. Það er því nokkurn veginn 100% að við getum ekki klárað neitt á þessu kjörtímabili. Nú veit ég ekki hvort það var ætlunin að setja hana svona seint af stað en ég vil ekki trúa því heldur frekar að þetta sé hefðbundið dug- og dáðleysi þessarar norrænu velferðarstjórnar.

Virðulegi forseti. Það sem hefur gerst hefur verið gagnrýnt mjög harkalega og við setjum það inn í nefndarálit okkar sem ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal skrifum undir. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur til dæmis gagnrýnt, og í rauninni harðar en maður hefur áður séð, þróunina hjá Fjármálaeftirlitinu. Stofnunin hefur stækkað mjög mikið. Hún hefur þrefaldast núna á nokkrum árum og er í raun enn að stækka og það er ýmislegt sem bendir til þess að þar hefði mátt standa betur að þeirri stækkun. Það eina sem lækkar á milli ára er einskiptiskostnaður.

Við erum komin með mjög stóra stofnun. Það er í rauninni ekki aukaatriði í okkar litla þjóðfélagi heldur skiptir það máli að hún sé komin í húsnæði með langtímaleigu á ágætisstað í borginni. Menn hafa ekki verið að líta til þess sem hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi og við höfum flest talað um, að það væri skynsamlegt að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Erlendir sérfræðingar hafa komið fram með þær hugmyndir, í rauninni flestir. Eitt af því sem við megum læra af bankahruninu er að við höfum ekki verið með þessar stofnanir sem eina og þar hefur sitthvað dottið á milli skips og bryggju, í það minnsta er ýmislegt sem bendir til þess. Það er auðvitað engin skynsemi í því að hafa neytendaverndina á nokkrum stöðum. Það ætti að vera forgangsmál þegar við eflum og styrkjum þessa stofnun að neytendaverndin sé í öndvegi, ef ekki þarna þá einhvers staðar annars staðar.

Ein af þeim stofnunum sem á að halda utan um neytendavernd er til dæmis önnur neytendastofa sem hefur ekki verið efld, í það minnsta ekkert í samræmi við Fjármálaeftirlitið. Síðan er neytendavernd held ég hjá talsmanni neytenda líka og jafnvel einhverjum fleiri stöðum, m.a. Samkeppniseftirlitinu. Það er auðvitað ekkert vit heldur eins óskynsamlegt og það getur orðið. Ég er hér í öllu þessu máli að skella skuldinni á stjórnmálamennina og hæstv. ríkisstjórn. Það getur verið viðkvæmt að gagnrýna og sumir taka það verulega mikið til sín og ég þekki það ágætlega sjálfur. Þó svo ég ætli núverandi stjórnarmönnum ekki að taka gagnrýni mína jafnmikið til sín og fyrrverandi stjórnandi er samt eins gott að ábyrgðin liggi þar sem hún á að vera. Hún er hjá hæstv. ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Staðan í neytendaverndinni er óþolandi. Hún hefur einfaldlega brugðist og við getum ekki kennt fjárskorti um það. Það er skortur á stefnumótun. Við þurfum að hafa öflugt og sjálfstætt fjármálaeftirlit. Það er líka augljóst, og er eitt af þeim málum sem ég hef unnið að ásamt fleirum, að þegar fjármálastofnanir voru á hendi fjármálaráðherra, sem þær áttu að vísu ekki að vera, var kíkirinn settur fyrir blinda augað og þær fengu að starfa óáreittar þótt þær uppfylltu ekki lögbundin skilyrði eins og með eiginfjárhlutföll. Það kostaði neytendur eða skattgreiðendur gríðarlegar fjárhæðir að þannig skyldi vera staðið að verki, fyrir utan að það er óþolandi að Fjármálaeftirlitið hafi ekki sinnt lögbundnu eftirliti eða tekið á því þegar svona var að málum staðið. Bara SpKef kostaði skattgreiðendur 25 milljarða kr. Hæstv. ráðherrar sögðu að það mundi ekki kosta skattgreiðendur eina einustu krónu. Ég ætla ekki að rekja alla þá sögu hér, ég hef gert það áður.

Síðan er það hitt varðandi slitastjórnirnar. Þá skulum við átta okkur á því að við erum að tala um verulega stórar fjárhæðir á íslenskan mælikvarða. Það er ekki boðlegt að ekki sé haft eftirlit með þeim eins og vera ber, sérstaklega þegar lagastoðin eða lögin eru eins og þau eru. Slitastjórnirnar höfðu leyfi til að reka fjármálafyrirtæki alveg fram til loka árs 2011 sem þýðir að það átti að hafa eftirlit með slitastjórnarmönnum alveg eins og um bankaráðsfólk væri að ræða. Það kemur einmitt inn á það sem ég og hv. þingmaður ræddum hér áðan, viðskipti við önnur félög svo dæmi séu tekin.

Síðan varð breyting á lögunum í júní 2011 en samkvæmt nýju ákvæði átti Fjármálaeftirlitið að hafa eftirlit með slitastjórnunum. Í ofanálag fullyrti þáverandi hæstv. ráðherra, Árni Páll Árnason, að fimm hundruð og eitthvað millj. kr. aukafjárveiting til Fjármálaeftirlitsins væri til þess að hafa eftirlit með slitastjórnum. Nú ætla ég ekki að leggja dóm á hvort það sé rétt hjá honum eða rangt en þarna er lagaskylda í það minnsta og við viljum, og flestir kannski telja að við hefðum átt að gera það áður, hafa öflugra eftirlit með bönkum og fjármálafyrirtækjum. Við eigum ekki að bíða eftir því að eitthvað komi upp sem gerir það að verkum að menn fara að skoða þetta. Það er skylda Fjármálaeftirlitsins að hafa eftirlit með þessum aðilum og við háttvirtir þingmenn eigum að hafa eftirlit með eftirlitinu. Það er þannig og það er ekki alltaf vinsælt. Það getur vel verið að það trufli ýmsa en það er okkar starf og okkar skylda. Ég þekki það ágætlega. Ég hef stundum verið í stjórnarandstöðu, ekki bara hér heldur líka í borgarstjórn, og það er ekki alltaf vinsælt ef maður gagnrýnir þótt það sé alveg nýtt að fjölmiðlar leggist á sveif með ákveðnum embættismönnum og annað slíkt eins og á Íslandi. Ég þekki það ágætlega af eigin raun, það er nýja Ísland, en það breytir því ekki að ef við setjum kíkinn fyrir blinda augað bregðumst við skyldum okkar.

Virðulegi forseti. Ef við skoðum hvað fór úrskeiðis og hvað við getum lært af bankahruninu var það þannig að meðal annars hv. þingmenn sinntu ekki eftirlitsskyldu sinni og skoðuðu ekki mál sem þeir hefðu átt að skoða. Ég er ekkert að fella neina dóma. Það eina sem ég er að segja er að ef við hv. þingmenn vitum eða höfum grun um að hlutirnir séu ekki eins og þeir eiga að vera í eftirliti með slitastjórnum eigum við að gera eitthvað í því. Ég tel að vísu að hv. nefnd hafi gert það. Menn eru alltaf að segja að ég sé hér að gagnrýna og skamma og því vil ég hrósa hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir að taka við fundarbeiðnum og öðru slíku sem skiptir máli. Við höfum oft kallað eftir því þegar við fáum ábendingar, m.a. út af neytendaverndinni, út af einstaka slitastjórnum þegar svo ber undir, fjármálafyrirtækjum og þeim aðilum sem eru á markaði. Það er líka það sem við eigum að gera og er mjög mikilvægt.

Ég ætli nú ekki að lengja ræðuna mikið en vil segja að við verðum að finna einhverja leið til að leiða málið til lykta. Annaðhvort erum við aðeins með nefndarfundi eða þá með rannsóknir sem kosta hundruð milljóna eða jafnvel meira, eins og rannsóknin sem er núna í gangi á sparisjóðunum og Íbúðalánasjóði sem og ýmislegt annað. Við verðum að finna eitthvert millistig þannig að þegar við höfum rökstuddan grun og fáum ábendingar um einhverja hluti eigum við að geta fengið niðurstöðu í málið, hvort sem við setjum sérstaka þingnefnd í það eða viðkomandi þingnefnd. Þetta á ekki að vera einhver fjölmiðlaumfjöllun í einn, tvo daga í besta falli eða umfjöllun í nefndum í nokkra klukkutíma heldur verðum við að finna einhvern flöt á því að fá niðurstöðu í mál. Ef þetta lýðræðislega fyrirkomulag okkar á að virka er eftirlitsþátturinn gríðarlega mikilvægur. Við höfum hér stórar og öflugar eftirlitsstofnanir en það þarf að hafa eftirlit með þeim eins og öllu öðru, alveg eins og það er haft eftirlit með okkur og með flestum þáttum þjóðfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég er kannski kominn alveg á ystu nöf í efninu en þó tengist þetta allt saman. Í þessari stuttu ræðu ætla ég ekki að fara yfir þá hluti sem við höfum farið í gegnum. Við höfum vakið athygli á þeirri gagnrýni sem hefur komið fram, sérstaklega frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins varðandi stækkun Fjármálaeftirlitsins. Ég ætla ekki að fara yfir það allt saman, það er þekkt. Það voru miklar deilur um fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á sínum tíma. Ég ætla að leggja áherslu á tvennt.

Það er óþolandi að vera með neytendaverndina í þeirri stöðu sem hún er núna. Ég hefði viljað sjá þessari öflugu, stóru og sterku stofnun beitt, og við hefðum þurft að breyta lögum til þess, til að sinna þeim þætti þannig að sómi væri að. Það hefði einfaldað hlutina mjög mikið og það hefði sparað gríðarlega fjármuni. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga. Það snýst ekki bara um ríkisútgjöld heldur útgjöld fólks, lögfræðikostnað og annað slíkt.

Síðan er hitt að við sjáum núna að eftirliti með slitastjórnum er ekki sinnt svo okkur ber skylda sem hv. þingmönnum í þessari nefnd að skoða það sérstaklega, fylgja því eftir og kanna hjá framkvæmdarvaldinu hvernig á því stendur.

Ég hef enga trú á öðru en að ný forusta Fjármálaeftirlitsins og það starfsfólk sem þar er sé alveg fullfært um að gera það og muni gera það vel. Það skiptir afskaplega miklu máli að við séum með öflugt og sjálfstætt fjármálaeftirlit en það þýðir ekki að við skoðum ekki hvernig því er best komið fyrir. Við þurfum að vera óhrædd við að taka þá umræðu því það er ekki samasemmerki milli þess að setja peninga í hlutina og árangurs. Við þekkjum það á öllum sviðum þjóðfélagsins að meira þarf að koma til. Það þarf að vera skýr stefnumótun. Við þurfum að vita til hvers er ætlast og hver og einn, hvort sem það er eftirlitsaðili eða aðrir, verður að vita hvað til síns friðar heyrir og hvaða skyldur og ábyrgð hann hefur.