141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[18:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er lítill áhugi á þessu stórmáli. Þetta er eitt af þeim málum sem er kannski skólabókardæmi um ótrúlegt dugleysi hjá núverandi ríkisstjórn. Það er í besta falli kaldhæðnislegt að við höfum afgreitt sama frumvarpið á sama tíma 2009, 2010, 2011 og núna 2012. Um hvað snýst málið? Það snýst um að í tíð síðustu ríkisstjórnar var ákveðið, og var það stefna allra flokka að undanskildum Vinstri grænum, að setja á einn stað þá samninga sem við gerum við heilbrigðisstofnanir. (EyH: Framsóknarmenn) Hv. þm. Eygló Harðardóttir kallar hér fram í: Framsóknarmenn. Það kom skýrt fram í umræðunni þá, ég man hana vel — munurinn á mér og hv. þm. Eygló Harðardóttur var að ég var hérna, gott ef ég var ekki ráðherra — að framsóknarmenn töldu þetta skynsamlegt. En þeir greiddu ekki atkvæði með þessu vegna þess að ég var ráðherra, [Hlátur í þingsal.] þeir töldu að ég væri of mikill einkarekstrarsinni til þess að þeir gætu greitt atkvæði um frumvarpið. Ég man aldrei eftir annarri eins atkvæðaskýringu, ég hef svo sem ekki verið hundrað á ár þingi, bara síðan 2003, en ég man ekki eftir því að stjórnmálaflokkur hafi verið fylgjandi frumvarpi en ekki greitt atkvæði með því af því að hann hafði eitthvað við viðkomandi ráðherra að athuga. Það var fyrrverandi hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem fór með þá tölu sem vakti athygli mína.

Af hverju er þetta? Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er veitt bæði af einkaaðilum og opinberum aðilum. Það er augljós skynsemi í því að einn aðili, sá sem borgar, hafi yfirsýn yfir það sem hann borgar fyrir og hvaða þjónustu hann kaupir. Áður en ég kom í ráðuneytið voru nokkrir aðilar með þetta. Það var samninganefnd heilbrigðisráðherra, það var heilbrigðisráðuneytið og svo sérstök sjúkratryggingadeild hjá Tryggingastofnun Íslands. Það voru þrír aðilar. Stundum vissu þeir ekki allir hvað hinir voru að gera. Ég man eftir sérstaklega eftir einni aðgerð, það var samið um tíu slíkar aðgerðir við Landspítalann og kostaði hver 1 milljón, en síðan hafði siglinganefnd inni í Tryggingastofnun samið við spítala úti í Svíþjóð, að mig minnir, og borgaði 2 milljónir fyrir hverja aðgerð þar. Hver og einn sér að þetta er ekki skynsamlegt.

Allir hafa kallað eftir skýrari línum í heilbrigðisþjónustunni og að samningar séu á bak við þjónustuna. Það eru alls konar skoðanir uppi um að það sé meira gert á sumum stöðum en öðrum þó svo að gjöldin séu þau sömu. Þetta hefur verið eilífðardeilumál. Það sem nágrannaþjóðir okkar hafa gert er nákvæmlega það að stofna sjúkratryggingastofnun. Þar ertu með á einum stað alla þá þekkingu sem hið opinbera, sem greiðir kostnaðinn, þarf að hafa og sér síðan um samninga við alla aðila.

Síðan geta menn haft allar skoðanir á fyrirkomulaginu. Sumir geta sagt: Þetta á alls ekki að vera svona. Eitt stjórnmálaafl hér á landi er á móti einkarekinni heilbrigðisþjónustu, sem er ein öfgafyllsta skoðun sem ég hef heyrt í íslenskum stjórnmálum. Það er samt bara einn stjórnmálaflokkur þeirrar skoðunar. Það er ekki þar með sagt að það stjórnmálaafl sé ekki fylgjandi því að vilja að fjármunum hins opinbera sé sem best varið. Gefum okkur að við viljum bara semja við opinberar stofnanir — vilja menn samt ekki vita hvað þeir eru að kaupa og geta borið saman hvar sé hagstæðast að gera hverja aðgerð? Við erum alltaf með takmörkuð fjárráð þegar kemur að peningum til heilbrigðisþjónustu. Það mun aldrei verða neinn heilbrigðisráðherra í neinu landi nokkurn tímann sem mun segja: Ég er búinn að fá of mikið af peningum, ég get ekki notað þá betur. Það er endalaust hægt að bæta tæknina, gera meira og bæta þjónustu. Við erum alltaf, hvort sem er í góðæri eða í kreppu, með takmörkuð fjárráð.

Þær þjóðir sem við berum okkur saman við, sérstaklega Norðurlandaþjóðirnar, hafa farið nákvæmlega þessa leið og það eru einföld skynsemisrök á bak við það: Að hafa þekkinguna á einum stað. Vandinn hefur verið sá þegar menn eru að semja, hvort sem það er við stórar stofnanir eins og Landspítalann eða aðrar, því að út á það gengur þetta, út á samninga, hefur verið meiri þekking hjá þjónustuveitandanum en t.d. ráðuneytinu.

Til þess að nýta féð sem allra best þarf að tryggja að við séum með þekkinguna á einum stað. Þetta snýst ekki um að fjölga starfsmönnum heldur að flytja starfsmenn, nánar tiltekið frá heilbrigðisráðuneytinu og frá Landspítalanum, heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í sjúkratryggingastofnun og ganga frá samningum um kostnaðarskiptingu milli Tryggingastofnunar og sjúkratryggingastofnunar þannig að það sé tryggt að við séum með sem besta þekkingu á einum stað og getum nýtt fjármunina eins vel og hægt er.

Af hverju að nýta fjármunina vel? Það er bara ein ástæða fyrir því en hún er rosalega góð, það er til þess að bæta þjónustuna við sjúklinga. Ef við getum fengið 5% ódýrari aðgerð getum við gert fleiri aðgerðir. Við getum bætt líðan fleira fólks. Við getum keypt meira af lyfjum. Þetta er eitthvað sem allir þekkja og þetta liggur fyrir. Þetta er hugmyndin á bak við sjúkratryggingastofnun. Stór hluti af heilbrigðisþjónustunni var kominn til sjúkratrygginga en ekki allur.

Núna í fjögur ár, virðulegi forseti, hafa hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. velferðarráðherra vandræðast með þetta og ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Við erum að fresta þessu eina ferðina enn. Það er algjörlega fyrir neðan allar hellur að vera með hálft kerfi. Ef mönnum finnst þetta kerfi vont ættu þeir að gera eitthvað annað í málinu, koma með einhverja aðra leið. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að einhver önnur leið sé betri. Þetta er þessi leið og svo er einhver önnur algjörlega óskilgreind leið sem enginn hefur talað fyrir. Þannig að þetta snýst ekki um tvo valkosti, að minnsta kosti hefur þessi ríkisstjórn ekki komið fram með annan valkost. Þetta er fullkomið framtaksleysi. Hverjir verða fyrir barðinu á því? Það eru sjúklingar í landinu. Þeir verða fyrir þjónustuskerðingu. Þetta er ekki þjónustuskerðing vegna þess að það er dregið saman í útgjöldum, þetta er þjónustuskerðing út af framtaksleysi og dugleysi ríkisstjórnar sem kennir sig við norræna velferð.

Til að setja þetta í samhengi vil ég nefna raunverulegt dæmi um hvað það þýðir þegar menn vinna eftir þessari hugmyndafræði. Árið 2007 voru langlengstu biðlistarnir eftir augnsteinaaðgerðum. Þá var farið að skoða hvernig hægt væri að veita þá þjónustu. Það var hægt að semja um augnsteinaaðgerðir og á Landspítalanum kostaði hver aðgerð um 280–300 þús. kr. Það var farið í einhvers konar útboð og samningar náðust um augnsteinaaðgerðir fyrir 170 þús. kr. hverja aðgerð. Það voru nokkrir aðilar, bæði einkaaðilar og opinberir spítalar, sem stóðu að þessu. Með þessum hætti tókst okkur að vinna á biðlistunum og þetta gerði það að verkum að miklu fleira fólk fékk þjónustu. Síðan var ýmislegt annað gott sem kom út úr þessu vegna þess að þessar einkareknu stöðvar flytja inn sjúklinga í stórum stíl. Hér koma Færeyingar í þessar aðgerðir og aðrar sambærilegar, koma til Reykjavíkur og eru hér í nokkra daga. Það skapar einnig tekjur fyrir ferðaþjónustuna og veitingastaðina því að oftast koma aðstandendur með.

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki hugmynd um hvað veldur þessari frestun, hvort það eru kreddur vinstri manna eða bara fullkomið dáðleysi eða vandræðagangur milli flokkanna í ríkisstjórn og þeim hrossakaupum sem þar fara fram. Kannski er þetta mál ekki af þeirri stærðargráðu að menn vilji setja það í forgang. Ég hef ekki hugmynd um það. Það sem ég veit hins vegar, virðulegi forseti, er að þetta er fyrir neðan allar hellur og hefur komið virkilega illa niður á sjúklingum þessa lands. Og það er algjörlega ljóst hver ber ábyrgðina. Það er þessi svokallaða norræna velferðarstjórn. Hún ber ábyrgð á þessu dug- og dáðleysi. Ég ætla að nota eitthvað af tíma mínum til að skammast út í þessa svokölluðu norrænu velferðarstjórn því að hún ber ábyrgðina. Það fólk sem er núna á biðlistum eftir aðgerðum, sem fær ekki þá þjónustu sem það á að fá, getur hugsað til þessarar norrænu velferðarstjórnar vegna þess að hún hefur dregið að gera það sem er augljóst og skynsamlegt og bætir þjónustuna fyrir sjúklinga. Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem ég hef tekið þessa umræðu 2009, 2010, 2011 og ég tek hana hérna 2012. Það er þess vegna, virðulegi forseti.

Það hafa aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, komið efnislega mótmæli við eina einustu af þessum ræðum mínum því að þetta eru augljósar staðreyndir. Enda eru menn ekki, virðulegi forseti, að leggja þessa stofnun niður. Og svo að menn átti sig á kreddunum hér þá tókum við þessa umræðu þegar við stofnuðum Sjúkratryggingar Íslands. Þá kallaði einn núverandi hæstv. ráðherra þetta hina nýju SS, slíkur var hitinn. Maður mundi nú ætla að þegar þessir aðilar kæmust að, ef þeir trúðu þessu, yrðu þeir fljótir að leggja niður þá stofnun sem þeir kölluðu þessu nafni. En þeim til hróss held ég að um leið og þeir kynntu sér málið og áttuðu sig á því hvað var í gangi þarna skildu þeir að það væri ekki skynsamlegt. En eftir stendur að það er ekki enn þá búið að ljúka málinu og það er algjörlega óþolandi og virkilega slæmar fréttir fyrir sjúklinga þessa lands. Þetta dáðleysi kemur beint niður á þeim sem síst skyldi.