141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og get tekið undir áhyggjur hennar hvað varðar það sem hún hafði hér fram að færa. Markmið frumvarpsins er að móta söluferli bankanna þannig að sala á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum fari fram samkvæmt tilteknum lögum, lagaverki og regluverki þar um, sem ekki hefur verið hingað til. Þetta frumvarp er auðvitað unnið sem niðurstaða af þeirri vinnu sem var farið í á árunum 2010 og 2011, þ.e. þegar regluverkið í kringum sölu á fjármálafyrirtækjum var kannað, sem var talið mjög ótryggt, ógagnsætt og í raun óhollt íslenskum fjármálamarkaði. Frumvarpið miðar fyrst og fremst að því að setja um þetta leikreglur, setja á það hemla hvernig farið verður með eignarhluti ríkisins, gera það eftir tilteknu fyrir fram mótuðu ferli, verja hlut ríkisins, t.d. í Landsbankanum þannig að ríkið verði alltaf ráðandi eigandi í þessum stóra banka, en selja minni eignarhluti, 5% í Íslandsbanka og 13% í Arion banka, ef ég man rétt, og það verði þá gert samkvæmt tilteknum mótuðum reglum og lögum þar um en ekki farið frjálsum höndum um það eins og hingað til.

Þannig lít ég á þetta frumvarp og þá umfjöllun sem var í fjárlaganefnd og þær breytingartillögur sem við erum að gera, einmitt með tilliti til þeirra varnaðarorða sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi hér áðan og ég hef áhyggjur af rétt eins og hún.