141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Birni Val Gíslasyni um að það sé framför að leggja til að settur verði lagarammi utan um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég bíð raunar eftir því að sjá frumvarp varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum almennt.

Hins vegar vil ég gjarnan spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta frumvarp komi til móts við þær ábendingar og þær áhyggjur sem komu fram í skýrslu þingmannanefndarinnar um hvernig ætti að standa að einkavæðingu fjármálafyrirtækja og síðan starfshóps sem vann að sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum og skilaði af sér nú í febrúar 2012 á vegum forsætisráðherra. Þegar maður horfir á ferlið sem hér er lagt til virðist aðkoma Alþingis að ákvörðunum um söluna og hvernig skuli standa að henni alls ekki vera nægilega vel tryggð. Það ferli sem hér er verið að leggja til er, eins og ég skil það og ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því, engan veginn í samræmi við það ferli sem sú nefnd sem skilaði af sér í febrúar 2012 lagði til. Þar var talað um að fyrst þyrfti að koma þingsályktunartillaga inn í þingið, sem 6. gr. í fjárlögum yrði að byggja á, og farið yrði í tvær umræður til að meiri hluti Alþingis kæmi að því að samþykkja hvernig standa ætti að sölumeðferðinni. Hér er hins vegar lagt til í 2. gr. að það verði útbúin greinargerð og hún verði lögð fyrir nefndir þingsins og þær fái að tjá sig um hana en ekkert er talað um að þingið þurfi á einhvern máta að samþykkja þingsályktunartillögu, eins og nefndin lagði til.

Telur hv. þingmaður að þetta sé í samræmi við það sem nefndin sem starfaði fyrir forsætisráðherra lagði til?