141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alþingi ákvað að vísa þessu máli til fjárlaganefndar sem hefur haft það til umfjöllunar. Þar hefur það legið síðan í lok september, ef ég man rétt. Ég get ekki gert að því að efnahags- og viðskiptanefnd skili ekki umsögn til fjárlaganefndar. Það hefði vissulega verið fínt að fá umsögnina áður en við afgreiddum málið en það gerðist ekki.

Síðari spurningin var — þingmaðurinn er vanur frammíköllum, ef hann gæti kallað hana fram. (Gripið fram í.) Réttur tími til að selja? Ég er ekkert endilega viss um það að það sé réttur tími til að selja núna. Umsagnaraðilar voru ekki einhuga um að það væri sérstaklega réttur tími til að selja núna. Þeir voru heldur ekki svartsýnir á að það væri hægt. Meðal annars komu stjórnendur Landsbankans á fund til okkar og töldu auðveldlega vera hægt að selja hluta í Landsbankanum og meira en gert væri ráð fyrir, en það voru skiptar skoðanir á því. Auðvitað spilar inn í annars vegar hvað auðvelt er að selja og hins vegar hvaða verð fæst. Mér finnst það ekki vera aðalatriðið í þessu máli eins og það er, heldur fyrst og fremst að lagarammi sé settur utan um það hvernig á að standa að sölunni. Hitt þurfum við að meta hverju sinni í kjölfarið, hvort sé rétt að selja og þá hvað mikið og hvort menn séu sáttir við verðið. Það er það sem kemur í framhaldinu af lagasetningunni sem fyrst og fremst er sett utan um það mál.