141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:42]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hún beindi til mín þremur spurningum.

Í fyrsta lagi. Er rétti tíminn til sölunnar? Ég hef ákveðnar efasemdir um það, svo því sé svarað alveg klárt og kvitt. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki er bein afstaða til þess í nefndarálitinu. Við spurðum að þessu í meðferð málsins í fjárlaganefnd. Ég held að samandregið geti maður svarað því og dregið saman þau svör sem við fengum með þeim orðum að það sé engin gargandi eftirspurn eftir fjármálafyrirtækjum til kaups á Vesturlöndum. Ég held að það sé þannig. Ég leyfi mér að draga í efa, ef við viljum, eins og er raunar undirstrikað í nefndaráliti okkar, reyna að hámarka virði þeirra hluta sem kynnu að verða seldir hjá ríkinu þá sé þetta ekki heppilegur tími í dag til þess, svo því sé svarað.

Ég ætla að svara spurningu hv. þingmanns um afstöðu til breytingartillögu um að ekki megi selja hluti til vogunarsjóða þegar ég hef séð þá tillögu. Ég tek þá umræðu væntanlega í þingflokki okkar. Ég hef ekki tekið umræðu við félaga mína sem standa að nefndarálitinu um það hvort við eigum að fara að sigta út einhverja tiltekna kaupendur eða ekki. Í mínum huga er það nokkuð ljóst og get svarað því fyrir sjálfan mig að ég hef ekki sérstaklega mikinn áhuga á því að vogunarsjóður starfræki viðskiptabanka hér á landi. Ég held raunar að þeir hafi ekki heldur áhuga á því sjálfir. Ég held að tilgangur þeirra sé allt annar og meiri.

Mér finnst alveg koma til greina að binda sölu eigna ríkisins því ferli með einhverjum hætti að þegar ráðherrar eru settir í þá stöðu að þurfa að selja hluti ríkisins sé það borið undir (Forseti hringir.) Alþingi, í hvaða formi svo sem það yrði gert.