141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ræðu hennar.

Ég er í eilitlum vandræðum með þessa tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hv. þingmaður hefur lagt hér fram, því eins og kemur fram í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins var ráðherra með lögum nr. 138/2009 veitt heimild til þess að staðfesta eða að mínu mati einkavæða fjármálafyrirtækin, það var sem sagt eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum, og afhenda þar með vogunarsjóðunum eða kröfuhöfum Glitnisbanka, Kaupþings og Landsbanka þennan eignarhlut. Þegar maður horfir á þetta frumvarp, ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að ég er alls ekki sátt við það, en það er betra en það sem við búum við í dag. Það sáum við svo skýrt árið 2009 þar sem ráðherra gat selt og afhent óþekktum aðilum, kröfuhöfunum, vogunarsjóðunum, hrægammasjóðunum, meiri hluta í tveimur bönkum. Það var raunar eitthvað sem þingmenn lásu bara um í blöðum. Skýrsla kom inn í þingið löngu síðar.

Eins og ég bendi á þá eiga þeir aðilar sem er verið að hafa áhyggjur af eignarhlut í þessum bönkum. Hjá Seðlabankanum liggur fyrir beiðni frá slitastjórnunum um að ganga frá nauðasamningum þar sem ætlunin er að stofna eignaumsýslufélög sem munu taka yfir eignarhlutinn, m.a. í þeim tveimur bönkum sem ég nefndi hér. Það kemur líka fram (Forseti hringir.) í greinargerðinni að það eru ákvæði um kauprétt í þeim samningum sem voru gerðir.