141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:13]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég er bara með frávísunartillögu er sú að ég tel að það þurfi að fara í miklu meiri vinnu við að endurskipuleggja fjármálamarkaðinn. Reyndar tel ég að við þurfum að endurreisa bankana upp á nýtt með því m.a. að láta meta eða koma hér inn með löggjöf sem skýrir hverjir það eru sem eru hæfir eigendur fjármálafyrirtækja. Ég held við værum ekki að brjóta alþjóðleg lög ef við útilokuðum eignarhald vogunarsjóða á fjármálamörkuðum. Það hefur ekkert verið skoðað. Það mundi auðvitað þýða, ef við settum þannig lög að vogunarsjóðir mættu ekki eiga fjármálafyrirtæki, að ríkið væri komið með bankakerfið aftur í faðminn. Því að ríkið eigi að vera aðaleigandi fjármálafyrirtækja á Íslandi er ég ekki sammála. En vegna þess að á fjármálamarkaði á Íslandi ríkir fákeppni vil ég að ríkið eigi alla vega einn banka og jafnvel að það eigi svo mikið að þeir bankar sem það á séu með meiri hluta markaðarins. Sem sagt að ríkið eigi banka sem eru með yfir 50% markaðshlutdeild. Það er til að tryggja að fákeppnisarðurinn renni í vasa skattgreiðenda eða komi til lántakenda í gegnum lægri vaxtakjör. Það er sem sagt eitt sem þarf að reikna út, hvort það dugi fyrir ríkið að eiga einn eða tvo banka til að vera með meiri hluta markaðshlutdeildar á fjármálamarkaði.