141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í andsvari við hv. þm. Lilju Mósesdóttur er ég að vissu leyti tvístígandi í afstöðu minni til þessa máls. Ég tel raunar eins og hv. þingmaður að best væri að geyma þetta frumvarp og vinna það betur í þinginu. Ef það er ekki hægt þarf væntanlega að reyna að fá ríkisstjórnina til að skoða málið betur. Ég held að það sjáist í sjálfu sér á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að kannski hefur ekki sérstaklega mikil vinna verið lögð í þetta frumvarp. Nefndarálitið er upp á tvær síður, en það sem liggur undir, samkvæmt mati fjárlagaskrifstofunnar, er að eignasala, sem ætti væntanlega fyrst og fremst að vera sala á eignarhlutum ríkisins, ætti að skila ríkissjóði 31 milljarði kr. í söluhagnað á tímabilinu 2012–2015. Miðað við hve miklir hagsmunir eru hér undir og hlutir sem við höfum séð að geta haft gífurleg áhrif á íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf tel ég að við ættum við að gefa okkur aðeins betra ráðrúm og meiri tíma í að skoða einstaka greinar og efni þessa frumvarps.

Eins og ég hef bent á og eins og við sáum svo vel árið 2009 er núverandi lagaumhverfi á engan máta ásættanlegt hvað varðar sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Undanfarin ár hefur ráðherra sem fer með þessa eignarhluti verið heimilt að selja t.d. stofnfjárhlutina í sparisjóðunum, eins og ákvæði hefur verið um í 6. gr. fjárlaga, um sölu. Það sýndi sig líka árið 2009 að það kom meira að segja upp ágreiningur milli ráðherra og þingsins um það hvort einhver ástæða væri til þess að óska sérstaklega eftir heimildum frá Alþingi um ráðstöfun á eignum íslenska ríkisins. Það varð nú ofan á að samþykkja lög þess efnis að ráðherrann fékk heimild eftir á til að gera það sem hann var þegar búinn að undirrita. Við erum núna að vinna úr því, m.a. í tengslum við uppgjör á þrotabúunum og þær beiðnir sem liggja núna fyrir í Seðlabankanum varðandi frágang á nauðasamningum. Eins og kemur fram í 1. gr. og athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins voru í þeim samningum kaupréttarákvæði með ákveðnum kvöðum. Hér er viðurkennt að þær kvaðir sem koma fram í þessum lögum munu ekki eiga við þegar kemur að því að selja eignarhluti á sama tíma og meirihlutaeigandi; það fer fram samkvæmt samningum sem þegar er búið að undirrita og við höfum haft óskaplega lítið um það að segja.

Þar sem frumvarpið er komið til 2. umr. hef ég í hyggju að velta fyrir mér einstökum greinum þess og skoða líka þær tillögur sem starfshópur sem starfaði á vegum forsætisráðherra um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum setti fram. Ég ætla að reyna að bera saman þær tillögur og það sem við erum hér með fyrir framan okkur, en það sem mér finnst mest áberandi í þessu frumvarpi er að það skortir á að tryggja aðkomu Alþingis að söluferlinu.

Það kemur fram á bls. 31 og 32 í skýrslu hópsins að mikil áhersla er lögð á að dregin verði skörp skil á milli markmiðssetningar stjórnvalda um sölu eignarhluta og faglegrar umsjónar með sölu. Hlutverk Alþingis varðandi ákvörðun um sölu verði eflt þannig að söluheimildin feli í sér markmiðssetningu með tiltekinni sölu ásamt því að tiltaka helstu sjónarmið, ef einhver eru, sem talið er að þurfi að hafa til hliðsjónar. Framkvæmd sölunnar verði hins vegar í höndum fagaðila, innan og utan ríkis eftir þörfum, sem vinni eftir þeirri stefnu sem mörkuð er með söluheimildinni.

Síðan er hér rætt um setja þurfi í lög ákvæði um sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum. Slík ákvæði gætu hvort sem er verið sérstök lög eða viðbót við fjárreiðulög. Þar væri kveðið á um að við sölu á eignarhlutum í eigu ríkisins skuli ávallt stuðst við fimm meginreglur: Jafnræði, gagnsæi, hlutlægni, hagkvæmni og virka samkeppni. Og áður en ákveðið er að selja eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum í E-hluta þurfi að leggja fyrir Alþingi í formi þingsályktunar beiðni um heimild til sölu og að í slíkri beiðni þurfi að koma fram markmið með sölu og kröfur sem leggja skal til grundvallar sölunni. Jafnframt þurfi heimild í 6. gr. fjárlaga um þá sölu að byggjast á þeirri forsendu að þingsályktun hafi verið samþykkt.

Síðan er haldið áfram og lagt til að sérstök sölunefnd verði skipuð í hverju tilviki og Ríkiskaup eða annar sérhæfður aðili sjái um útboð og mat á tilboðum við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum í E-hluta. — Væntanlega er hér litið svo á að Bankasýslan sé svokallaður annar sérhæfður aðili þegar kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Þá er talað um að reglur stjórnsýsluréttarins eigi að gilda um málsmeðferð við undirbúning að ráðstöfun eigna í E-hluta ríkissjóðs, þ.e. ákvörðun þeirra skilyrða sem sala skal bundin og um frágang á samningi um sölu eignarhluta. Þegar sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum í E-hluta sé lokið verði Alþingi gefin skýrsla um framkvæmd sölunnar og hún rædd þar sérstaklega.

Þessi starfshópur eða nefnd fjallaði ekki bara um sölu á fjármálafyrirtækjum heldur fyrirtækjum almennt og því er hér talað um að þetta regluverk eigi jafnframt að gilda þegar ákveðið er að einkavæða ríkisstarfsemi sem nú er sinnt í A-, B-, C- eða D-hluta fjárlaga, enda væri fyrsta skrefið í slíku ferli að færa rekstrarformið í einkaréttarlegt form og þar með yfir í E-hluta fjárlaga.

Svo er talað um reglugerðarheimild til að útfæra nánar verklag við sölu eignarhluta ríkisins í E-hluta ríkissjóðs og hlutverk sölunefndar og annarra aðila.

Í tillögu nefndarinnar er líka rætt um hvað ætti að vera í reglugerð sem fjármálaráðherra mundi setja um sölu eignarhluta. Þar er talað um gildissvið, lýsingu á því hvernig þingsályktun um tillögu vegna sölu á eignarhlutum skuli vera úr garði gerð og samspil hennar við 6. gr. fjárlaga, að fjármálaráðuneytið undirbúi tillögur um sölu og rökstuðning fyrir henni í samráði við aðra ráðherra eftir efni, tillagan komi síðan fram á Alþingi í formi þingsályktunar og þegar söluheimildin hefur verið samþykkt á Alþingi skipi ráðherra sölunefnd með fulltrúa sínum, forsætisráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og ef svo ber undir þess ráðuneytis sem fer með þann málaflokk sem tengist starfsemi fyrirtækis sem fyrirhugað er að selja.

Svo er fjallað um hlutverk sölunefndarinnar og að hún semji sölulýsingu í samræmi við ákvörðun Alþingis í samvinnu við Ríkiskaup. Við sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum hefði Bankasýslan að óbreyttum lögum um hana stóru hlutverki að gegna varðandi þá sölu og stýrði sölunefndinni. Hlutverki hennar væri nánar lýst í reglugerðinni. Kveðið væri sérstaklega á um að nefndin væri bundin af ákvæði söluheimildar Alþingis og þeim meginreglum sem lögfestar hafa verið vegna sölu eignarhluta.

Þegar maður ber þessar tillögur saman við þetta frumvarp stoppar maður einna helst við 2. gr., um ákvörðun um sölumeðferð. Þar er ekki vísað til þess að til komi einhvers konar þingsályktunartillaga. Þetta er atriði sem ég nefndi t.d. við þáverandi fjármálaráðherra þegar var gengið frá sölu eignarhluta ríkisins, í einkavæðingunni síðari. Það hlýtur að vera betra fyrir ráðherra að fara með málið í gegnum Alþingi og fá skýran pólitískan stuðning við þingsályktunartillögu sem hann leggur til og er rædd í tveimur umræðum og greidd atkvæði um hana. Það mundi tryggja pólitískan stuðning þannig að ráðherrann stæði ekki einn eftir með þessa ákvörðun og mundi líka tryggja aðhald frá stjórnarandstöðunni gagnvart stjórnarmeirihlutanum og opna á gagnsæja umræðu í sölum Alþingis.

Það sem ég stoppaði líka við í 2. gr. er að það má velta fyrir sér hvort nægilega skýrt sé tekið á því í textanum, þó að það sé fjallað nánar um þetta í athugasemdum við greinina í frumvarpinu, ef það koma til breytingar síðar. Ráðherra getur ákveðið að gera allt í einu breytingar á því hver séu hin helstu markmið með sölu eignarhlutarins, hvaða söluaðferð verði beitt og hvernig sölumeðferð verði háttað að öðru leyti, ef hann telur, eins og segir í athugasemdum með 3. gr., málefnaleg rök til, ef hann getur rökstutt þær breytingar. Við sáum í fyrri einkavæðingunni að ákveðnir hlutir voru ræddir á Alþingi en síðan urðu breytingar í söluferlinu, eins og sést þegar maður les í gegnum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem gerði það að verkum að þeir sem komu að þessu síðar veltu fyrir sér hvernig breytingin varð.

Ég stoppaði líka sérstaklega við í meirihlutaáliti fjárlaganefndar þar sem allt í einu er farið að tala aftur um kjölfestufjárfesta. Í frumvarpinu er vísað til þess að í eigendastefnu fyrir ríkið í fjármálafyrirtækjum skuli stefnt að dreifðri eignaraðild og það sé mjög mikilvægt. En hér erum hins vegar aftur farin að ræða um kjölfestufjárfesta, sem ég verð nú að segja, eftir reynsluna frá því 2008, reyndust okkur ekkert sérstaklega vel. Enn á ný má rifja upp að þegar tekin var ákvörðun um að víkja frá dreifðri eignaraðild var farið yfir í að nota þetta hugtak, kjölfestufjárfestir, án þess að það væri rökstutt sérstaklega af hverju það ætti að vera svo miklu betra.

Í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar er rætt töluvert um að í meginreglum og ákvæðum frumvarpsins skorti á, þó að hægt væri að vísa til þess að hér væri ákveðin lögskýring ef þetta frumvarp tekur gildi sem lög, að kveðið sé á um hæfi væntanlegra kaupenda. Í ljósi reynslunnar og þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis virðumst við oft hafa mikla hæfni til þess að reyna að sveigja lögin eins og hentar okkur og því mundi ég telja að hér þyrfti að kveða skýrt á um þetta, líka í ljósi reynslunnar frá því 2009 þar sem var farið á mjög frumlegan hátt fram hjá reglum um hæfi eigenda fjármálafyrirtækja. Það þyrfti í fyrsta lagi að koma alveg skýrt fram að við þyrftum að vita hverjir þeir væru og í öðru lagi þyrftu þeir að uppfylla hæfisskilyrði til þess að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki.

Það er náttúrlega hálfeinkennilegt að þurfa að standa hér og ræða þetta, en við þurfum ekki að fara lengra til baka en 2009 til þess að minna okkur á að þá var svo sannarlega vikið frá reglunum um hæfi og við erum hér enn þá að fást við það. Það er að mínu mati væntanlega ein helsta ástæðan fyrir að hv. þm. Lilja Mósesdóttir leggur fram tillögu um frávísun málsins vegna þess að á sínum tíma, árið 2009 (MT: Og Sjóvá) — og Sjóvá — var ekki gætt að hæfisskilyrðum.

Ég kom inn á þá hugmynd áðan að ráðherra legði fram þingsályktunartillögu og við erum nú þegar með tiltölulega nýleg lög sem voru sett í framhaldi af hruninu, annars vegar lög um rannsóknarnefndir og hins vegar lög um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem settur er rammi um að til þingsins komi þingsályktunartillaga sem fari í gegnum tvær umræður, hún sé samþykkt á Alþingi og grundvallist á almennum lögum. Það væri því að mínu mati ekki flókið að gera þá breytingu á þessu frumvarpi sem mundi endurspegla til dæmis það fyrirkomulag sem er í lögum um rannsóknarnefndir.

Þar sem ég sat og beið eftir að ég kæmist að í ræðustól hugsaði ég til þess að við þurfum kannski öll að íhuga, ekki bara við sem sitjum í þingsal heldur líka þeir sem eru utan þings og hlusta á þessa umræðu, að það er um svo mikla hagsmuni að ræða fyrir íslenskt samfélag þegar við tökum ákvörðun um meðferð og sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum og stórum ríkisfyrirtækjum. Við þurfum virkilega að gæta okkar. Við þurfum sem flest að koma að þessari umræðu. Hún á ekki bara að fara fram á vegum viðkomandi fagnefnda eins og hér er lagt til, fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar, heldur er þetta eitthvað sem allir þingmenn verða að axla ábyrgð á gagnvart sínum umbjóðendum, kjósendum, íslensku þjóðinni og taka þátt í umræðunni og ræða um það sem við erum að gera, hvort það sé einhver skynsemi í því og hvaða afleiðingar það getur haft. Dæmin sem við höfum eru allt of stór, allt of alvarleg til þess að við getum afgreitt þetta mál af léttúð, einum eða tveimur sólarhringum áður en við förum í jólafrí. Við þurfum öll að fara vel yfir þetta, kynna okkur málið og meta hvort þetta sé besta fyrirkomulagið því að afleiðingarnar geta verið allt of alvarlegar ef við förum ekki rétt að.