141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna hv. þingmann á seinni spurningar mínar því að ég hef mikinn áhuga á að vita hvers konar fjármálamarkað hv. þingmaður sér fyrir sér að þurfi að þróast hér á landi, hvernig eignarhaldi á bönkum og sparisjóðum eigi að vera háttað. Ég mundi gjarnan vilja fá að heyra það.

Varðandi hæfi vogunarsjóða til þess að vera eigendur fjármálastofnana held ég að við séum komin í algjörar ógöngur. Við beitum klækjabrögðum og högum okkur eins og hrægammasjóðir með því að stofna eitthvert eignarhaldsfélag sem á í öðru eignarhaldsfélagi til þess að fela eignarhaldið. Ég held að við séum með því að fresta vandamáli sem á eftir að stækka og stækka, sem við stöndum reyndar frammi fyrir í dag, þ.e. eigendur bankanna eru ekki langtímafjárfestar heldur skammtímafjárfestar sem vilja bara hámarka arðgreiðslur út úr bönkunum. Þeir eiga mjög auðvelt með að gera það og geta gert það með því einu að hækka hér vexti sem eru nú þegar á heimsmælikvarða, þeir eru margfalt hærri en í nágrannalöndunum.

Ég held að sé orðið mjög brýnt að við veltum fyrir okkur hvort það þurfi ekki algjörlega að stokka upp fjármálakerfið í þriðja sinn, þá fyrst og fremst út af hagsmunum almennings í landinu. Þá væri líka hægt að nota tækifærið til að færa skuldir heimila og fyrirtækja nær greiðslugetu þeirra. (Forseti hringir.)