141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú átta ég mig ekki alveg á því hvort þingseta mín eða ekki þingseta mín skiptir einhverju máli í þessu sambandi og læt það nú fram hjá mér líða.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að það verði selt samkvæmt ákveðnum skilyrðum, þ.e. ef fæst fyrir það ásættanlegt verð og samkvæmt þeim leikreglum sem við erum að setja hér. Mér mundi líða miklu betur, alveg sama hverjir verða á þingi í framtíðinni, hvort það verður ég, hv. þingmaður eða aðrir sem sitja hér inni eða hvaða stjórnvöld verða ráðandi, ef það verður farið samkvæmt öðrum leikreglum en í dag. Þær eru bara akkúrat engar. (EyH: En er þetta nóg?) Það er síðan spurningin, sem kemur fram í frammíkalli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, hvort þetta sé nóg. Ég tel svo vera. Ég er tilbúinn til að endurskoða það og taka tillit til þeirra orða sem hafa fallið í þá áttina sem snýr beinlínis að þessu frumvarpi. Það munum við gera í fjárlaganefnd, taka tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram í umræðunum.

Svarið við þeirri spurningu er að mér mundi líða miklu betur, alveg sama hvaða stjórnarflokkar réðu ferðinni í framtíðinni og tækju ákvörðun um að selja, ef við værum búin að setja því einhverja lagalega umgjörð. Ég er ekkert viss um að aðrir stjórnmálaflokkar og annar meiri hluti á þingi mundi setja því jafnströng skilyrði og tiltekna lagaumgjörð og við erum að reyna að gera hér. Reynslan sýnir okkur það.