141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ræðuna, ekki síst í ljósi þess að hann er fyrsti þingmaður þingflokks Samfylkingarinnar sem tjáir sig um þetta mikilvæga mál. Ég sakna þess alveg sérstaklega að hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hafi ekki tjáð sig um málið.

Ég er komin hingað upp til að gera athugasemd við fullyrðingu þingmannsins um að við séum ekki að samþykkja sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum heldur fyrst og fremst að samþykkja lagaumgjörð um söluferlið. Ef maður les frumvarpið, þá sérstaklega 1. gr., er áréttað þar að ráðherra hafi heimild til þess að selja þessa hluti. Ég velti því fyrir mér af hverju þótti nauðsynlegt að hafa þennan texta í 1. gr. fyrst þetta er bara lagaumgjörð um söluferli? Af hverju er 2. gr. ekki bara 1. gr.? Til hvers þarf að árétta þessa heimild í frumvarpinu þar sem hún er nú þegar til?

Frú forseti. Ég vil jafnframt fá að vita hvort þingmaðurinn sé ekki sammála mér um að í dag sé ekki rétti tíminn að fara út í sölu á hlutum ríkisins í bönkum og sparisjóðum. Ástæðan er sú að við búum við gjaldeyrishöft og jafnframt víðtækt eignarhald vogunarsjóða á fjármálafyrirtækjum. Þurfum við ekki fyrst að leysa snjóhengjuvandann áður en við förum út í sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum?