141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:17]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, nú er mér að einhverju leyti orðavant. Stóra málið er þetta: Við ætlum einmitt að læra af reynslunni. Ég tel að það sé afar mikilvægt að áður en menn fara út í sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjunum séum við einmitt með þennan lærdóm um gömlu einkavæðinguna í höndunum. Ég mundi mæla gegn því að nokkrir eignarhlutir væru seldir fyrr en skýrslan um einkavæðingu bankanna lægi fyrir, sem þýðir á mannamáli að þessi lagarammi sé fyrst og fremst settur sem ákveðin varúðarráðstöfun gagnvart því að næsta ríkisstjórn hlaupi kannski til og geri eitthvað í anda þess sem gert var hér á árunum upp úr 2000 án þess að nokkur aðkoma Alþingis sé tryggð að því eða nokkrar meginreglur um sölumeðferðina liggi fyrir. Vissulega þarf að læra af þessari reynslu.

Við eigum líka að vera óhrædd við að fara í gegnum rannsókn á því ferli sem tók við hér eftir hrun. Almennt eru menn allt of hræddir við það að opna bækurnar og sýna hvaða sjónarmið, hvaða vinnubrögð voru nýtt í stórum málum. Hluti af því sem við höfum verið að vinna með hér undanfarin missiri tengist því að opna stjórnkerfið miklu betur fyrir miðlun upplýsinga til almennings um þá lykilþætti sem tengjast helstu almannahagsmunum. Ég tel að það sé eitt af stóru verkefnum komandi ára að tryggja (Forseti hringir.) að þar verði gerð stór bragarbót á.