141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir sem samþykkt voru á Alþingi sumarið 2011. Þegar hafa tvær rannsóknir á grunni laganna hafist, annars vegar á Íbúðalánasjóði, hins vegar á sparisjóðunum, og samþykkt hefur verið þingsályktunartillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna og mun hún hefjast á næsta ári.

Rannsóknirnar á grunni þessara laga hafa verið umfangsmeiri, tímafrekari og dýrari en ætlað var, en reynslan hefur þegar sýnt að nauðsynlegt er að gera nokkrar breytingar á lögunum að mati forsætisnefndar sem flytur frumvarpið. Því er í frumvarpinu sem er að finna á þskj. 516 lagt til að inn í lögin verði sett þrjú ný ákvæði sem varða í fyrsta lagi skipan rannsóknarnefnda og stöðu þeirra sem skipaðir eru til verka í þeim, í öðru lagi greiðslu kostnaðar vegna gagnaöflunar nefndanna og í þriðja lagi skaðleysi rannsakenda. Lögin teljast þó varla fullreynd fyrr en að einni eða fleiri rannsóknum samkvæmt þeim er lokið og mun ég koma að því síðar.

Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um frumvarpið á nokkrum fundum sínum. Nefndin skilaði tveimur álitum, þ.e. nefndaráliti á þskj. 734 og framhaldsnefndaráliti á þskj. 771. Þegar nefndin lauk umfjöllun sinni um málið 14. desember síðastliðinn var niðurstaða 1. minni hluta sem skipuðu sú sem hér stendur og hv. þingmenn Oddný Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir og Lúðvík Geirsson sú að leggja til eina breytingu á 1. gr. frumvarpsins. Er það til samræmis lögunum um rannsóknarnefndir.

Eins og ég sagði áðan fjallar 1. gr. frumvarpsins um réttarstöðu þeirra sem skipaðir eru til verka í rannsóknarnefndum, þ.e. að héraðsdómara sem skipaður er til setu í rannsóknarnefnd skuli veitt leyfi frá störfum dómsins meðan nefndin starfar. Í öðru lagi að ríkisstarfsmenn skulu eiga rétt á launalausu leyfi þann tíma sem rannsóknarnefnd starfar. Í þriðja lagi að verði nefndarmaður forfallaður eða ef hann getur ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu getur forsætisnefnd, eins og þar segir, skipað annan mann til þess að taka sæti í nefndinni.

Fyrsti minni hluti gerir breytingartillögu við þetta ákvæði, þ.e. að í stað forsætisnefndar komi forseti og er það til samræmis við 1. og 3. gr. laga um rannsóknarnefndir þar sem það er forseti en ekki forsætisnefnd sem skipar í nefndina.

Í rökstuðningi er að öðru leyti tekið undir með greinargerð frumvarpsins um nauðsyn þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Nefndinni barst ein umsögn sem var frá Alþýðusambandi Íslands. Þar er vakin athygli á því og þeim sjónarmiðum komið á framfæri að með ákvæðinu sem ég rakti áðan væri einstaklingum mismunað eftir hvort þeir störfuðu á almennum vinnumarkaði eða hjá ríkinu, enda tæki ákvæðið eingöngu til ríkisstarfsmanna og þeim væri veittur betri réttur en öðrum.

Nefndin hefur ekki fallist á þessi sjónarmið og áréttar að starfsumhverfi ríkisstarfsmanna er í grundvallaratriðum frábrugðið því sem gerist á almennum markaði þar sem ríkisstarfsmenn eru ráðnir í þjónustu ríkisins í þágu opinbers verkefnis, en á almennum vinnumarkaði gilda ráðningarsamningar vinnuveitenda og starfsmanna. Þeir byggjast á samningsfrelsi þar sem almennt er stefnt að fjárhagslegum ávinningi.

Í ljósi þessa verði almennt að treysta því að einstaklingar sem starfa á almennum vinnumarkaði og veljast til setu í rannsóknarnefndum semji við vinnuveitendur sína um leyfi vegna þessa.

Frú forseti. 2. gr. frumvarpsins fjallar um kostnað við gagnaöflun rannsóknarnefndar. Í ákvæðinu er sú meginregla fest í sessi að sá sem hefur gögn undir höndum beri kostnaðinn af afhendingu gagnanna. Í einstökum tilfellum geti þó verið álitamál hvort eðlilegt sé að þriðji aðili beri kostnað af því að taka saman gögn og koma til rannsóknarnefnda. Í ljósi þess er lögð til heimild fyrir rannsóknarnefnd til að ákveða hvort kostnaður umfram það sem eðlilegt má teljast greiðist af nefndinni.

Í ákvæðinu er einnig lagt til það nýmæli að ef um er að ræða einstakling, lögaðila eða opinbera starfsmenn sem eru til rannsóknar, beri rannsóknarnefnd almennt kostnað af afhendingu og vinnslu gagnanna. Undir öll þessi sjónarmið og ákvæði hefur nefndin tekið.

Í þriðja lagi er lagt til nýtt ákvæði í lög um rannsóknarnefndir sem fjallar um skaðleysi rannsóknarnefndarmanna. Er ákvæðið í frumvarpinu samhljóða ákvæði sem var sett í lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna haustið 2008 og tengdra atburða, en þau lög eru nr. 142/2008. Markmiðið með þessu skaðleysisákvæði er í reynd að tryggja vernd nefndarmanna sem og hlutleysi þeirra. Að auki er talið að slíkt ákvæði komi í veg fyrir að þess verði freistað að hafa áhrif á rannsókn eða tefja hana með málarekstri á hendur rannsóknarnefndarmönnum.

Þegar nefndin hafði skilað nefndarálitinu héldum við áfram umfjöllun um 3. gr. laganna, þ.e. um skaðleysisákvæðið. Við fengum til fundar við okkur prófessor við Háskóla Íslands, Róbert R. Spanó, sem á sínum tíma var einnig til aðstoðar þegar lögin um rannsóknarnefndir voru sett. Tilefnið var í rauninni það sjónarmið að gildissvið skaðleysisgreinarinnar væri mjög rúmt. Ég endurtek að þetta ákvæði er orðrétt tekið upp úr lögunum um rannsóknarnefnd Alþingis sem sett var við nokkuð sérstakar aðstæður eins og við þekkjum. Gildissviðið er þannig að það er ekki takmarkað við nefndarmennina sjálfa sem skipaðir eru til þess að rannsaka, heldur nær það til allra einstaklinga sem hafa unnið að rannsókninni.

Eftir nokkra umfjöllun er það niðurstaða meiri hluta nefndarinnar sem er að finna á þskj. 771, en hann skipa auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Lúðvík Geirsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Margrét Tryggvadóttir, að ekki sé þörf á að ákvæðið nái til einstaklinga sem hafa unnið að viðkomandi rannsókn eins og segir í greininni, heldur eingöngu til þeirra sem skipaðir hafa verið til starfans, þ.e. nefndarmannanna sjálfra. Enn fremur teljum við rétt að ákvæðið um skaðleysi nái til þeirra sem áður hafa verið skipaðir á grundvelli laga um rannsóknarnefndir og leggur meiri hlutinn til breytingar í samræmi við þetta, annars vegar á gildistökugreininni og hins vegar að út falli þeir einstaklingar sem unnið hafa að rannsókninni og í stað þess komi nefndarmennirnir eingöngu.

Það sjónarmið kom einnig fram fyrir nefndinni að gildissvið greinarinnar væri of víðtækt hvað snertir þau gögn sem skaðleysinu er ætlað að ná yfir. Samkvæmt greininni er lagt til að kröfum út af atriðum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar eða öðrum skýrslum, eða frásögnum í tengslum við rannsóknina, verði ekki beint að þeim sem unnið hafa að rannsókninni.

Meiri hlutinn telur nægilegt að takmarka verndina við rannsóknarskýrslu nefndarinnar og aðrar skýrslur í tengslum við rannsóknina og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá veru, þ.e. að orðin „og frásögnum“ falli út úr greininni.

Með þessu er áréttað í nefndarálitinu að verði þessar breytingartillögur samþykktar nái vernd, þ.e. skaðleysið samkvæmt 3. gr., ekki til munnlegrar frásagnar heldur eingöngu til skriflegrar framsetningar í skýrslu. Þannig beri nefndarmenn t.d. ábyrgð á yfirlýsingum sínum í fjölmiðlum varðandi rannsókn sem þeir hafa unnið að, en skaðleysisákvæðin fjalla annars vegar um einkamál og hins vegar um atriði samkvæmt 2. og 3. tölulið 42. gr. almennra hegningarlaga, ærumeiðingarkafla hegningarlaganna.

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að umfjöllun nefndarinnar um þetta atriði er ekki lokið vegna þess að fyrir nefndinni kom einnig fram að við rannsóknarnefndir sem horft var til þegar lögin voru sett og eru starfandi í Danmörku samkvæmt dönskum lögum er ekki gert ráð fyrir neinu skaðleysi nefndarmanna. Nú er verið að afla nánari upplýsinga um það hvernig skaðleysi er háttað þar sem það er til staðar samkvæmt norskum lögum.

Því óska ég eftir því, frú forseti, að þegar 2. umr. lýkur verði þessu máli vísað aftur til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem mun halda áfram að fjalla um þessi atriði sem ég hef hér nefnt og varða sérstaklega skaðleysið.

Menn telja sig ekki komna að niðurstöðu þar, enda þótt allir séu sammála um að það sem hér er á ferðinni sé til mikilla bóta, að takmarka skaðleysi við nefndarmennina sjálfa og skrifað orð í skýrslu eða áfangaskýrslum eða hlutaskýrslu nefndarinnar, þá kann að vera að þetta ákvæði sé enn of víðtækt, sérstaklega hvað varðar ærumeiðingarnar, 242. greinina.

Frú forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég víkja að síðasta þættinum í framhaldsnefndaráliti á þskj. 771 því þar kemur fram ábending frá meiri hluta nefndarinnar um þörfina á endurskoðun laga um rannsóknarnefndir í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra. Meiri hlutinn telur mikilvægt að endurskoðun laganna fari fram sem fyrst og að í þeirri vinnu verði litið til þess hvaða reglur gilda um sambærilegar rannsóknarnefndir annars staðar á Norðurlöndum, sérstaklega í Noregi og í Danmörku.

Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til forsætisnefndar að hún skipi vinnuhóp sem taki til starfa eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi þannig að vinnuhópurinn hafi greiðan aðgang að upplýsingum og reynslu nefndarmanna í þeim nefndum sem nú þegar eru starfandi.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með þeim þremur breytingartillögum sem raktar eru hér á þingskjölum 734 og 771, en fer jafnframt fram á að málinu verði vísað aftur til umfjöllunar í nefndinni á milli 2. og 3. umr.