141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina.

Ég held að það dyljist nú engum að það væri frekar þörf á að taka til í þessum frumskógi sem vörugjöldin eru. Ég sé að samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans eru tillögurnar þrjár: Ein er lítils háttar breyting sem kemur frá ráðuneytinu, önnur hækkun á tollfrelsi varnings og í þeirri þriðju er lagt til að tollur á reiðhjól verði felldur niður.

Þegar mælt var fyrir málinu og eins í umræðum um málið hafa menn haldið á lofti svokölluðu manneldissjónarmiði sem er auðvitað göfugt. Það var mjög athyglisvert að lesa umsögnina frá landlæknisembættinu þar sem kemur í raun og veru mjög skýrt fram að það sjónarmið nái ekki fram að ganga með þessum breytingum á tollanúmerunum eða vörugjaldaflokkunum.

Það er líka sagt að skipaður hafi verið starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins einmitt til þess að einfalda þennan frumskóg en eins og ég skil málið er í raun og veru búið að flækja það. Maður er auðvitað dálítið hvekktur eftir síðustu uppákomu hér þegar hæstv. velferðarráðherra lagði gjöld á lækningatæki sem fóru síðan eins og allir þekkja á allt aðra hluti og menn vissu ekkert um það og áttuðu sig einhvern veginn ekki á því fyrr en allt of seint þegar fjölmiðlar komust í málið, þó svo það hafi verið vitað í tíu vikur.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki ástæðu til, eins og hann kom reyndar inn á í ræðu sinni, að fara að grisja vöruflokkanúmerin til að reyna að ná einhverjum tökum á þessum hlutum frekar en að hafa þetta eins og það er. Ef hv. þingmaður þekkir til getur hann þá aðeins upplýst mig um hvernig þessi nefnd starfaði og hverju hún skilaði af sér?