141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Það kemur fram í umsögn SA að þeir telji eðlilegra að fara aðrar leiðir, þ.e. samræma skattheimtuna og setja matvælin í eitt þrep virðisaukaskatts frekar en að vera með allan þennan frumskóg. Það auðvitað sparar atvinnulífinu mikla fjármuni við að halda utan um alla þessa flokka og þeir vita þá hvað er hvar, eins og hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu, eftir því hvort brauðið er ristað lárétt eða lóðrétt. Það er auðvitað hlutur sem þarf að taka á.

Nú hefur því verið haldið fram að ástæðan, eða réttlætingin fyrir skattinum ef ég má nota það orð, sé einmitt manneldissjónarmið. Það kemur skýrt fram í umsögn frá landlæknisembættinu að þetta mun auka neyslu á sælgæti. Maður staldrar töluvert við svona hluti þegar þeir koma frá opinberri stofnun.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef mikla samúð með hv. þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem málin koma inn nánast á lokaklukkutímum þingsins. Maður sér það á meðferð þessa máls og eins á svokölluðum bandormi eða kyrkislöngu að þetta er ofboðslega skammur tími.

Ég vil spyrja hv. þingmann þótt kjörtímabilið sé að enda og meðferð þessara mála hafi ekkert skánað, hvort hann telji ekki alveg á hreinu að breyta verði þessum vinnubrögðum.

Síðan situr hv. efnahags- og viðskiptanefnd með málið í fanginu og er einhvern veginn að reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga við erfiðar aðstæður og situr svo alltaf uppi með það markmið að ná þessum tekjum inn í ríkissjóð.

Ég spyr hv. þingmann hvort það hafi legið fyrir þegar nefndin var skipuð að það ætti að ná þessum tekjum inn í ríkissjóð og í leiðinni einfalda vöruflokkakerfið eða hvort það hafi frá upphafi aldrei verið markmiðið, eins og kemur fram í athugasemdum frá SA, (Forseti hringir.) að ná í þessar 800 milljónir.