141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum oft sammála um ýmis atriði. Ég verð þó að vera ósammála hv. þingmanni um það að málið sé flókið, sömuleiðis að það sé illa unnið og að betra hefði verið að hækka bara gamla skattinn. Þau sjónarmið sem Samtök iðnaðarins settu fram 2009, um að þessi aðferð væri betri, eiga við býsna gild rök að styðjast.

Einfaldleikinn í kerfinu er sá að gjaldið leggst á sykur. Þegar menn, sem eru að framleiða einhverja vöru, kaupa kíló af sykri í tollinum borga þeir sykurskatt fyrir það kíló af sykri og svo nota þeir það í framleiðslu sína eftir því sem verkast vill. Það þýðir að allir framleiðendur sitja við sama borð að þessu leyti. Allir borga miðað við það hve mikill sykur er í því sem þeir eru að framleiða.

Þau hliðaráhrif held ég að séu fremur í léttvæg að þrjár sælgætistegundir lækki eitthvað aðeins í gjöldum. Þær lækka þá bara í hlutfalli við þann sykur sem í þeim er. Ef menn vilja bregðast við því eitthvað sérstaklega til þess að tryggja það að súkkulaði, karamellur og lakkrís lækki ekki í verði við þessa breytingu þá geta þeir auðvitað gert ráðstafanir til þess. Ég held að það sé alls ekkert meginmál.

Kosturinn er einfaldlega sá að þetta þýðir að það eru bara þær vörur sem innihalda sykur sem borga þarf sykurskatt af og hann er nákvæmlega í hlutfalli við það hvað er mikill sykur í vörunni. Það er sanngjarnt innra skipulag, hvað svo sem segja má um manneldissjónarmið eða annað þess háttar.

Auðvitað er þetta fyrst og fremst gert til tekjuöflunar, til þess eru vörugjöld. Ef menn þyrftu ekki á tekjunum að halda hygg ég að þeir væru ekki að leggja þau á.