141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur ekki sagt að þetta sé einfalt. Það hefur komið hér fram að menn lögðu upp með að leggja á neysluskatta því að þá hætti fólk bara að borða sykur vegna þess að það væri svo dýrt. Þá kemur landlæknir og segir: Heyrðu, smámál hérna, karamellur og súkkulaði mun lækka verulega í verði, þetta mun ýta undir að fólk borði sykur.

Þetta eru ekki bara gjöld á sykur, ég veit ekki hvort þetta er einföldun eða hvað, því að menn eru líka með skatt á sætuefni. Fyrir þá sem ekki vita hvað í því felst verða gjöldin 42 þús. kr. á hvert kíló. Hugmyndin er sú að af því að sætuefni eru almennt með hundrað sinnum meiri sætu… (Gripið fram í: Tvö hundruð.) fyrirgefið, tvö hundruð sinnum meiri sætuáhrif en sykur þá sé þetta réttlætanlegt. Nú hefur komið í ljós að það eru til sætuefni sem eru með 800 sinnum meiri sætuáhrif en sykur. Ef það var eitthvað einfalt í þessu er einfaldleikinn algjörlega farinn út um gluggann. Ég veit ekki hvort við munum vera með 168 þús. kr. á hvert kíló af þessum 800 sinnum öflugra sætuefni en sykurinn er. Þá fer að verða ansi ábatasamt að smygla því inn. Það er mikill hvati í því, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Þetta er sko allt annað en einfalt.

Síðan kom hér athugasemd. Ég verð að viðurkenna að á hlaupunum hef ég gleymt að spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvernig fór með náttúrulega sætuefnið sem við fengum ábendingar um að menn ætluðu að setja upp verksmiðju og framleiða. Hv. þingmaður getur kannski svarað því hvort við ætlum að gera eitthvað til að (Forseti hringir.) sú atvinnustarfsemi verði hér á landinu.

En hv. þingmaður verður að viðurkenna (Forseti hringir.) að þetta er ekki einföldun.