141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:40]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um vörugjöld. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur farið vel yfir einstök atriði þessa frumvarps. Ég vildi eingöngu vekja athygli á einu litlu atriði í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, það er sú tillaga að felldir verði niður tollar á reiðhjól. Ég held að þetta sé lítið mál en táknrænt fyrir áherslur meiri hlutans um að ýta undir vistvænar samgöngur og grænar áherslur í samfélaginu. Þetta er tillaga sem á uppruna sinn í skýrslunni um eflingu græna hagkerfisins og er ætlað að skapa ákveðið jafnræði gagnvart þeim vélknúnu ökutækjum sem þegar njóta ákveðinna skattfríðinda samkvæmt löggjöf og lagabreytingum sem hafa verið gerðar hér á undanförnum tveimur árum, og tengjast m.a. því að bílar sem ganga fyrir metani og er breytt úr bensínhákum og yfir í metanbíla njóta skattfríðinda. Með þessari tillögu um að fella niður tolla á reiðhjól er verið að skapa ákveðið jafnræði sem mun nýtast hjólreiðamönnum hér á landi.

Það er rétt að vekja athygli á því að í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum er sömuleiðis um að ræða tillögu sem gengur út á að efla vistvænar samgöngur í framtíðinni.

Ég held að þetta sé lítið en táknrænt atriði sem vert er að vekja sérstaka athygli á í þessu frumvarpi sem hefur að geyma ýmiss konar önnur ákvæði sem vel hefur verið farið yfir í þessari umræðu.