141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:43]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg spurning, en manneldismarkmið voru ein af þeim markmiðum sem lagt var upp með í þessu frumvarpi frá hendi framkvæmdarvaldsins. Ég held að það hafi verið rétt af meiri hlutanum og nefndinni að kveða upp úr með að þarna er ekki um að ræða fullnægjandi leið ef við ætlum að ná fram manneldissjónarmiðum með þessari aðgerð. Ég held að sú leið að leggja vörugjöld á sykur sé hjálpleg, hún er einfaldari en það kerfi sem við höfum haft, en hún er engan veginn fullnægjandi. Hún hefur þá augljósu galla sem bent hefur verið á að verð á tilteknum vörum eins og karamellum og súkkulaði mun lækka. Þar af leiðandi er þetta ekki fullnægjandi aðgerð að neinu leyti en þetta er ákveðinn áfangi sem þarf hins vegar að styrkja verulega. Ég held að næsta skref í þessum málum sé að koma fram með heildstæða aðgerð þar sem tekist er almennilega á við þau vandamál sem birtast okkur m.a. í offitu hér á landi. Við þurfum að fara miklu betur í gegnum það hvaða hagrænu hvötum við getum beitt, t.d. í vörugjaldakerfinu, til að ná ásættanlegum árangri.