141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[23:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að hrósa nefndinni fyrir eina af breytingartillögunum sem fram hafa komið. Það er breytingartillaga, merkt númer 2, þar sem „lagt er til að hámark á tollfrelsi varnings sem ferðamenn flytja til landsins hækki úr 65.000 kr. í 88.000 kr. og“ — það er nú það sem ég ætla að hrósa nefndinni fyrir — „að hámark á verðmæti einstaks hlutar verði afnumið“.

Niðurstaða nefndarinnar er að hún telur ekki þörf á því að hafa sérstök mörk fyrir verðmæti einstaks hlutar. Mér hefur alltaf fundist það fremur ankannaleg og undarleg regla, virðulegi forseti, að tilgreina annars vegar hámark fyrir þann varning sem má bera til landsins, en setja þó síðan sérstakt ákvæði um að enginn einn einstakur hlutur megi kosta meira en eitthvað ákveðið. Auðvitað á bara hámarkið að gilda.

Að slíkt fyrirkomulag skuli hafa verið hér árum saman leiðir hugann að því hversu margbrotið og flókið allt þetta kerfi er. Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að meiri hluti nefndarinnar hvetur til heildarendurskoðunar á fyrirkomulagi vörugjalda og virðisaukaskatts með það fyrir augum að einfalda og samræma álagninguna. Það er ekki í fyrsta sinn sem slík herhvöt hefur hljómað. Margsinnis hefur verið kallað eftir slíkri einföldun og slíkri vinnu. Ég veit ekki hvenær hægt verður að gera sér vonir um að slíkt verði gert, en það þarf að eiga sér stað. Fyrir okkur, sem höfum litla þekkingu á þessu kerfi og höfum lítið skoðað það og ekki haft mikið með það að gera að standa í því að flytja inn varning til landsins, er augljóst að þetta er allt að því martraðarkennt kerfi. Ég velti því stundum fyrir mér eftir að ég fór að skoða kerfið vegna þessa máls hvort það hafi verið búið til eða það hafi bara orðið til. Hvort virkilega hafi verið að baki eitthvert kerfi, einhver hugsun, eða þetta hafi bara einhvern veginn orðið svona. Ég óttast að það sé nú hið síðara, það hafi einhvern veginn þróast í þá áttina án þess að menn hafi verið búnir að setja það niður fyrir sér. Það er því þörf á að laga það. Það er ekki skynsamlegt að hafa kerfið svona.

Ég ætla ekki að taka hér upp einstakar lýsingar — ég gerði það í ræðu þegar við ræddum málið fyrst — úr lögunum þar sem verið er að lýsa einstökum tollflokkum. Það er verkefni sem hlýtur að vera allt að því skelfilegt fyrir embættismenn, að fara í gegnum það allt og finna vörum réttan stað. Ég fagna því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að nauðsynlegt sé að taka það til endurskoðunar.

Hitt vil ég segja, virðulegi forseti, og vil taka undir það sem fram hefur komið hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að allt þetta mál er ekki vel undirbúið. Eins og kannski vill gerast þegar við erum að klára mál á síðustu dögum fyrir áramót og fram koma rökstuddar ástæður til að nálgast þau með öðrum hætti þá er lítill tími fyrir okkur til að bregðast við. Við höfum heyrt hvað varðar manneldissjónarmiðin þær áhyggjur sem þeir sem þar gerst þekkja til hafa sett fram um málið. Sem endurspeglar auðvitað það hversu hættulegt er að fara af stað með slík sjónarmið að ætla sér að breyta skattkerfinu næstum því á handahlaupum til að ná fram til dæmis manneldissjónarmiðum. Skattkerfið er fyrst og síðast ætlað til þess að afla ríkissjóði tekna. Það er meira en að segja það að ætla sér að setjast niður og beita sköttunum til að ná fram til dæmis breyttri neysluhegðan til að ná fram markmiðum varðandi lýðheilsu, enda hefur það komið fram að meira að segja er hætta á því að ákveðnar tegundir af sælgæti lækki jafnvel í verði vegna slíkra breytinga.

Í þriðja lagi vil ég segja, virðulegi forseti, af því ég ætla ekki að lengja ræðuna, að augljóst er og um það þarf ekki að deila og er heldur ekki gerð tilraun til þess að fela það hjá hv. nefnd, að þetta ráðslag allt mun leiða til hækkunar á vísitölu og þar af leiðandi hafa áhrif á kjör almennings í landinu, í gegnum hækkað vöruverð og síðan í gegnum hækkun á lánum. Það höfum við verið að gagnrýna í fjárlagafrumvarpinu sem við afgreiddum í dag og síðan í öðrum tekjutillögum ríkisstjórnarinnar. Það hefði skipt svo miklu máli við þær aðstæður sem nú eru með kjarasamninga lausa handan við hornið, ef illa fer, að allt sem frá þinginu hefði komið hefði verið byggt þannig upp að það væri algerlega lágmarkað og helst engar slíkar hækkanir sem leiddu til hækkunar á verðlagsvísitölunni. Ég veit að það er ekkert auðvelt, virðulegi forseti, en ég er sannfærður um að það er hægt. Það hefði auðvitað þýtt öðruvísi nálgun á fjárlagafrumvarpið allt. Það er ekki við þessa hæstv. nefnd að sakast. Hún hefur staðið fyrir sínum verkefnum og leyst þau með þessum hætti. En ég ítreka að ástæða er til að hlusta á það þegar Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins vara okkur alþingismenn og hæstv. ríkisstjórn við því að það sé vegna stefnumótunar og tillagna héðan erfiðara að ná fram kjarasamningum og halda þeim saman.

Þeir hv. þingmenn sem ákveða að hlusta ekki eftir því — ég tala nú ekki um hæstv. ráðherra sem ákveða jafnvel að ganga fram af hörku gegn þeim sem þann boðskap flytja — taka ansi mikla áhættu og horfa fram hjá langri sögu þjóðarinnar, hörmungarsögu, þegar kemur að víxlverkun launa og verðlags. Það er gáleysi, virðulegi forseti, að láta eins og það sé ekki hættulegt vandamál.