141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[23:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 792 og breytingartillögum nefndarinnar. Því hefur verið dreift og málið er fyrst og fremst tæknilegs eðlis, varðar ýmsar lagfæringar og leiðréttingar í skattkerfinu.

Það ákvæði sem kom til mestrar umfjöllunar í nefndinni voru tillögur um frekari ákvæði um vaxtabætur vegna endurreiknings á erlendum lánum á komandi árum. Kallaði nefndin eftir upplýsingum um umfang áhrifa þess ákvæðis, hversu marga það mundi snerta, hversu háar fjárhæðir það mundi varða og annað slíkt, en þær upplýsingar fengust því miður ekki við vinnslu málsins. Kaus nefndin því að fella ákvæðið úr frumvarpinu að svo stöddu án þess að útiloka að málið verði tekið upp aftur í framhaldinu þegar upplýsingar liggja fyrir. Með þeim breytingum sem lagðar eru til á frumvarpinu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.