141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[10:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Nauðsynlegt hefur reynst að fresta gildistöku þessa ákvæðis ítrekað, eins og hv. þingmaður nefndi. Það er einfaldlega vegna þess að kerfið sem sett var upp í miklum flýti á árunum 2007 og 2008 var vanbúið, var vanhugsað og allt of dýrt. Ég minni á að flokkur minn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, varaði stórlega við því, taldi það skref í átt að einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Fyrst og fremst er kerfið of dýrt og ekki hefur verið hægt í kjölfar hrunsins að hrinda því í framkvæmd. Það var spurning um fleiri hundruð milljónir og það veit hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ég vil hins vegar nota tækifærið, þegar ég segi já við frestun á gildistöku þessa ákvæðis, til að ítreka þá skoðun okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að nauðsynlegt sé að endurskoða lög um sjúkratryggingar og huga að annars lags endurskipulagningu í heilbrigðisþjónustu okkar til gagns fyrir sjúklinga og eins fyrir ríkissjóð.