141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í því frumvarpi sem hér um ræðir er fjallað um það hvernig lagaumgjörð á að vera um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum ef þeir verða seldir. Slík lagaumgjörð er ekki til í dag. Með því að samþykkja að vísa þessu máli frá er verið að festa í sessi þann losaraskap sem hefur verið áratugum saman með grafalvarlegum afleiðingum fyrir þjóðina. Hér er í fyrsta skipti verið að setja þetta í ferli þannig að þingið, Seðlabankinn, Bankasýslan, fjármálaráðuneytið og þeir aðilar sem málið varðar fái að koma að því, hafa áhrif á það, stoppa það og gera athugasemdir o.s.frv. við sölu á þessum eignarhlutum. Um það fjallar þetta mál, það fjallar ekki um að taka ákvörðun um að selja. Sú heimild er í fjárlögum (Forseti hringir.) í dag að selja eignarhluti í sparisjóðunum án nokkurrar lagaumgjarðar þar um. Það er nauðsynlegt (Forseti hringir.) að samþykkja þetta mál hér í dag, frávísun á því væri fráleit.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á tímamörk í þessari umræðu.)